Óvissa um hvar veðrið verður verst

Vonskuveður nálgast landið og eru almannavarnir í viðbragðsstöðu.
Vonskuveður nálgast landið og eru almannavarnir í viðbragðsstöðu. mbl.is/Rax

Veðurspár helgarinnar taka enn breytingum. Áfram er gert ráð fyrir vonskuveðri, en vindstrengurinn hefur færst nokkuð vestar. Búast má við að lægðin sem gengur yfir dýpki mjög hratt, en nokkur óvissa er um í hvaða landshluta veðrið verður verst. Þó má gera ráð fyrir slæmu veðri víða á landinu og ísingu þegar kólnar.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur síðustu daga verið í sambandi við lögreglustjóra, almannavarnanefndir, sveitarstjóra, bændur, og ferðaþjónustuaðila og fleiri og hvatt þá til að fylgjast með veðurspám, og upplýsa þá sem eru á ferð um veðurútlit og grípa til aðgerða ef með þarf með öryggi almennings að leiðarljósi.

Björgunarsveitarmenn fóru um hálendið í dag

Þá fundaði almannavarnadeildin með fulltrúum Slysavarnafélagsins Landsbjörgu og Safe Travel í dag, en björgunarsveitarmenn á vegum hálendisvaktarinnar hafa farið um svæðið norðan Vatnajökuls og mið- hálendið og upplýst hjólreiðamenn, göngumenn, ökumenn og aðra sem þar eru á ferð.

Upplýsingamiðstöðvar ferðaþjónustunnar, gististaðir, skálaverðir og landverðir hafa einnig  fengið tilkynningar um það veður, sem er í aðsigi. Svæðisstjórnir björgunarsveita hafa einnig allar verið upplýstar.

Ráðstafanir til að koma fé úr hættu

Almannavarnarnefnd Eyjafjarðar kom saman í dag og fór m.a. yfir viðbrögð við óveðri sem spáð er næstkomandi föstudag og laugardag þar sem vænta má snjókomu til fjalla með hættu fyrir búfé og ferðalanga.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin hefur aflað sér hafa sveitarstjórnir í umdæminu í samráði við fjallskilastjóra þegar gert ráðstafanir til að smala fé og koma því úr hættu. Nefndin hvetur alla sem hafa vitneskju um ferðalanga sem ætla sér að vera á fjöllum um helgina að gera ráðstafanir til að hægt sé að vara þá við. Nefndin mun áfram fylgjast með framvindu mála ef aðstæður munu breytast í umdæminu.

Þá hvetur lögreglan á Akureyri fólk í umdæminu til að huga að lausum hlutum og ganga úr skugga um að þeir geti ekki fokið.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist áfram með framvindunni í samvinnu við Veðurstofuna og miðlar upplýsingum á www.almannavarnir.is og á facebook síðu almannavarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert