Vel hefur gengið að manna göngur

Heimir Ásgeirsson, gangnaforingi í Grýtubakkahreppi, beislar hest sinn, en hóf …
Heimir Ásgeirsson, gangnaforingi í Grýtubakkahreppi, beislar hest sinn, en hóf smölun í birtingu í morgun. mbl.is/Benjamín Baldursson

„Það hafa margir haft samband og það hefur tekist vel að manna göngurnar,“ segir Jens Pétur Jensen, sveitarstjóra Húnavatnshrepps, en sveitarfélagið auglýsti í gær eftir fólki í fjárleitir.

Jens Pétur segir að flestir sem fari í göngurnar séu úr Húnavatnssýslum. „Fólk hefur hins vegar haft samband víðar af landinu, m.a. úr Borgarfirði og einn og einn af sunnan. Við erum hins vegar orðin þokkalega mannaðir.“ Hann segir að skólafólk hafi fengið frí til að fara í göngur.

Gangnamenn í Húnavatnssýslu lögðu af stað í gær. Þeir sem eru á fjórhjólum byrjuðu að reka fé af stað í gær, en það tók þá sem eru á hestum allan daginn að komast inn í gagnamannakofa. Þeir lögðu síðan af stað í birtingu í morgun.

Ná ekki að smala allt svæðið

Jón Gíslason, bóndi á Búrfelli í A-Húnavatnssýslu og fjallskilastjóri á Auðkúluheiði, sagði í samtali við mbl.is í morgun að aðstæður til smölunar væru góðar núna. „Við sáum að við gætum ekki smalað alla Auðkúluheiði og við erum því að taka hluta hennar til byggða. Venjulega byrjum við að smala fram við jökla en það er engin leið að koma fé til byggða af fremsta svæðinu á tveimur dögum,“ sagði Jón, en venjulega tekur smölun af Auðkúluheiði fjóra daga.

Jón sagði erfitt að áætla hversu stór hluti fjárins komi af fjalli í þessum göngum. Það verði hugsanlega ekki nema helmingur. Hann sagði að menn skildu eftir þurrasta svæðið, þar sem talið væri minnstar líkur á mikilli snjókomu.

Jón reiknar með að réttir hefjist að lokinni smölun annað kvöld og klárað verði að rétta á föstudagsmorgun.

Spá norðverstan 18-23 m/sek og snjókomu

Göngur hófust einnig í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslum í morgun.

Veðurstofan birti í morgun endurskoðaða veðurspá fyrir föstudag og laugardag. Spáð er norðvestan átt með 18-23 m/sek NV-til með mikilli rigningu seinnipartinn, en snjókomu ofan 200-300 metra yfir sjávarmáli. Á laugardaginn er spáð norðvestan 18-23 m/s og talsverð eða mikil rigning á Vestfjörðum og N-lands og slydda í innsveitum, en snjókoma ofan 200-300 metra hæðar yfir sjó.

Nánar á veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert