Á Íslandi er mest frjósemi í Evrópu, en íslenskar konur fæða að meðaltali 2,2 börn. Vegna mikillar frjósemi íslenskra kvenna er hlutfall frumbyrja hér lægst, eða 39,4% fæðandi kvenna á árinu 2010.
Hér eru 3% fæðandi kvenna undir tvítugu, sem er hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum en þó lægra en í flestum öðrum Evrópulöndum, t.d. í Bretlandi. Tæpur fimmtungur kvenna (19,1%) sem fæddu barn á Íslandi var 35 ára eða eldri og er það svipað hlutfall og í Bretlandi og á hinum Norðurlöndunum en í mörgum löndum Mið- og Suður-Evrópu er um fjórðungur fæðandi kvenna 35 ára eða eldri. Fjölburafæðingar eru tiltölulega fáar á Íslandi, eða 14,3/1000 fæðingar.
Þetta kemur fram í Talnabrunni, fréttabréfi Landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.
„Hér á landi er hlutfall eðlilegra fæðinga hæst í Evrópu, eða 78,7% allra fæðinga. Við erum með lægstu tíðni keisaraskurða í Evrópu á árinu 2010, eða 14,8%. Hér er einnig lág tíðni áhaldafæðinga, þ.e. fæðinga með hjálp sogklukku eða tangar (6,5%). Það er lágt hlutfall, sérstaklega þegar tekið er tillit til lágrar tíðni keisaraskurða. Tíðni spangarklippinga er einnig lág á Íslandi miðað við önnur Euro Peristat-lönd, en tíðni alvarlegra spangarrifa (3. og 4. gráðu rifur) eru algengari en víða annars staðar, eða 4,2%.
Enginn mæðradauði var á Íslandi á árunum 2006–2010. Hér á Íslandi var lægsta tíðni andvana fæðinga miðað við 28 vikna meðgöngu, eða 1,8/1000 fædd börn. Hér var einnig lægsta tíðni nýburadauða (innan 28 daga frá fæðingu) eða 1,2/1000 lifandi fædd börn. Á Íslandi og í Finnlandi var lægsta tíðni ungbarnadauða (innan 365 daga frá fæðingu), 2,3/1000 lifandi fædd börn. Hér á landi var einnig lægsta tíðni léttbura (< 2500g), eða 3,3% fæddra barna, og lægsta tíðni fyrirbura (<37v), 5,5% fæddra barna,“ segir í Talnabrunni.
„Það skýtur því skökku við að á Íslandi var tíðni lágs Apgar stigs, þ.e. minna en 7 við 5 mínútna aldur, hærra en í flestum Evrópulöndum, eða 2,0%. Hins vegar var tíðni mjög lágs Apgars (<4) við 5 mínútna aldur aðeins 0,4%, sem er svipað og í öðrum Evrópulöndum. Þetta veltir upp spurningunni hvort fleiri börn á Íslandi fæðist með einkenni um súrefnisskort en ýmislegt bendir reyndar til að stigagjöfin sé strangari hérlendis. Þetta gefur þó tilefni til að rannsaka nánar ástand nýbura á Íslandi, t.d. með því að mæla sýrustig í naflastreng við fæðingu eins og gert er víða á Norðurlöndum,“ segir ennfremur.
„Í stuttu máli má segja að öruggt sé að fæða og fæðast á Íslandi. Mikilvægt er að fylgjast með gæðavísum, sjá hvar við getum bætt árangurinn og standa vörð um þann árangur sem náðst hefur. Nauðsynlegt er að fækka alvarlegum spangarrifum en sérstakt átak er þegar hafið vegna þess. Auk þess er þörf á meta betur ástand barna í fæðingu og draga úr fjölda barna sem fæðist með einkenni súrefniskorts. Einnig er áformað að taka þátt í evrópskri skráningu á meðfæddum göllum (Eurocat) og heilalömun (C.P.),“ segir að lokum.