Guðný Rós Vilhjálmsdóttir, sem kærði Egil Einarsson og Guðríði Jónsdóttur fyrir nauðgun fyrir tveimur árum, hefur glímt við áfallastreituröskun eftir atburðinn. Niðurstöður greiningarmats sálfræðingsins er að allt viðmót hennar bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn og bjargarleysi.
Samsvara einkennum fólks sem hefur upplifað áföll eins og stórslys, líkamsárás, nauðgun eða hamfarir
Eru sálræn einkenni sem Guðný upplifði sögð samsvara einkennum sem séu vel þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og stórslys, líkamsárás, nauðgun eða hamfarir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali sem Þóra Tómasdóttir, ritstjóri Nýs lífs, tók við Guðnýju og birt er í Nýju lífi sem kom út í dag.
Í viðtalinu lýsir Guðný því þegar hún hitti Guðríði á skemmtistað og hvernig Guðríður á að hafa gert sér dælt við hana. Guðný fer yfir atburðarásina á heimili Egils í viðtalinu og það sem gerðist í framhaldinu.
Hefur verið sleitulaust hjá sálfræðingi síðan
Guðný segist handviss um að brugðist verði við þessari frásögn hennar og reynt verði að rýra trúverðugleika hennar.
„Ég veit að þessu verður ekki tekið þegjandi. Til dæmis hefur verið útbúið margra síðna skjal þar sem skýrslurnar af mér eru bornar saman og reynt er að draga fram ósamræmið í því sem ég sagði. Mér finnst líklegt að reynt verði að fá skjalið birt í fjölmiðlum.
Ég get ekki annað en ítrekað að í þessu viðtali er ég að lýsa minni upplifun af því sem gerðist. Kynni mín af Agli og Gurrý þetta umrædda kvöld höfðu þau áhrif á mig að ég hef verið sleitulaust í meðferð hjá sálfræðingi síðan. Ég hef aldrei nokkurn tíma þurft að leita mér hjálpar hjá sálfræðingi áður. Mér finnst óraunhæft að gera þá kröfu á manneskju í svona miklu áfalli, að hún gefi nákvæma og greinargóða skýrslu af atburðaráðsinni sem olli áfallinu,“ segir Guðný í viðtali við Nýtt líf.
Allt hrundi á ný
Að sögn Guðnýjar hrundi allt þegar Egill kærði hana fyrir rangar sakargiftir. „Ég man að ég trúði því ekki að þetta gæti orðið enn verra. Ég trúði því ekki að ég gæti orðið að sakborningi í málinu. Ég var mjög reið út í lífið, því það var ekki bara ég sem þjáðist. Þetta bitnaði á fjölskyldunni minni, náminu mínu og ég hrundi aftur. Ég trúði því ekki að málið hans myndi leiða til sakfellingar en þetta var samt slæmt.“