„Þetta gekk mjög erfiðlega vegna þess að engin skepna vildi fara heim. Það er svo gott veður hérna svona um mitt sumar,“ segir Ómar Sigtryggsson, fjallskilastjóri í Reykjahverfi, kíminn en heitt var í veðri í Suður-Þingeyjarsýslu í gær. Gangnamenn þar lögðu af stað klukkan níu í gærmorgun.
„Safnið er rétt að koma til byggða,“ segir Ómar í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag, en smölun sem átti að ljúka um miðjan dag lauk um kvöldmatarleytið í gærkvöldi.
Ómar segir erfiðlega hafa gengið að smala vegna hitans og að féð hefði ekki verið tilbúið í að kveðja afréttina svo snemma árs. Stefnt er að því að rétta í Skógarétt í Reykjahverfi í dag og hefur um 2.000 kindum verið smalað þangað. Hitinn hafði einnig áhrif í Staðarrétt í Skagafirði. Þar er stefnt að því að rétta í kvöld, en smölun hófst klukkan sex í gærmorgun.