Mjög slæmt veður framundan

Það er full ástæða fyrir íbúa á norðan- og vestanverðu …
Það er full ástæða fyrir íbúa á norðan- og vestanverðu landinu að vera við öllu búnir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Veðurstofan hefur sent frá sér nýja spá fyrir næstu daga en ljóst er að það er mjög slæmt veður framundan á morgun og laugardag. Gera má ráð fyrir að mesta úrkoman verði á Vestfjörðum á föstudagskvöld, en færist síðan yfir á Strandir og Húnavatnssýslur ásamt Skagafirði og vestanverðum Tröllaskaga.

Föstudagur

Suðlæg átt, 3-10 m/s og rigning S- og V-til og á köflum talsverð, en þurrt að kalla á Austurlandi. Vaxandi norðvestan- og vestanátt á morgun, 15-23 m/s seinnipartinn NV-til og talsverð eða jafnvel mikil rigning, en snjókoma ofan 200-300 metra hæðar yfir sjó. 13-20 SV-til og rigning, en slydda til fjalla. Yfirleitt hægari vindur A-lands og rigning framan af degi, en úrkomuminna síðdegis. Hiti 8 til 17 stig, en 3 til 11 á morgun, hlýjast A-til.

 Á laugardag

Norðvestan og vestan 15-23 m/s og talsverð eða mikil rigning N-til á landinu og slydda í innsveitum, en snjókoma ofan 200-300 metra hæðar yfir sjó. Mest úrkoma í Húnavatnssýslum, Skagafirði og á Tröllaskaga fyrripartinn. Úrkomulítið S-lands. Dregur mjög úr vindi og úrkomu um kvöldið og nóttina, fyrst vestast á landinu. Hiti 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum N-lands.

Á sunnudag

Gengur í suðaustan 5-13 m/s með rigningu S- og V-lands, annars þurrt. Hlýnar smám saman, hiti 6 til 12 stig seinnipartinn.

Þessi spá er unnin skv. nýjustu spá Reiknimiðstöðvar evrópskra veðurstofa (ECMWF) sem byggð er á greiningu 29. ág. kl. 00:00 sem og Hirlam (DMI) og UK-Lam sem byggðar eru á greiningu 29. ág. kl. 06:00.

 Dálitlar breytingar hafa orðið miðað við spár gærdagsins. Þessar eru helstar:

1. Allar spár gera ráð fyrir að lægðin verði 8 til 12 hPa grynnri en fyrri spár. Eins eru nýjustu spárnar 1 til 3 gráðum kaldari, en á móti verður veðurhæðin ekki eins mikil, þannig að heildaráhrifin verða svipuð með tilliti til slyddu og snjókomu til fjalla.

2. NA-land sleppur líklega sæmilega þar sem vindátt verður úr vestri og því ekki líkur á mikilli úrkomu, nema þá tímabundið seinnipart nætur aðfaranótt laugardags.

3. Gera má ráð fyrir að mesta úrkoman verði á Vestfjörðum á föstudagskvöld, en færist síðan yfir á Strandir og Húnavatnssýslur ásamt Skagafirði og vestanverðum Tröllaskaga. Ekki er gert ráð fyrir að miklar breytingar verði úr þessu, en litlar breytingar á braut lægðarinnar geta valdið miklum breytingum eftir landshlutum.

Eins má búast við að vindhraði geti náð 13-20 metrum um landið vestanvert með kalsa-rigningu og slyddu til fjalla og er fólk hvatt til að huga að lausamunum hjá sér.

Um er að ræða óveðurslægð sem spáð er að dýpki mjög hratt en ennþá er nokkur óvissa um hvar lægðarmiðjan verður síðdegis á morgun og hefur það nokkur áhrif á hvar veður verður verst, þannig að full ástæða er fyrir íbúa á norðan- og vestanverðu landinu að vera við öllu búnir.

Sjá einnig á vef almannavarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert