Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur unnið að því síðustu daga að finna dagvistunarúrræði fyrir börnin sem voru vistuð á ungbarnaleikskólanum 101. Finna þurfti úrræði fyrir 38 börn. Nú hafa dagvistunarúrræði fundist fyrir 30 börn. Eftir standa átta börn sem enn eru ekki komin með örugg pláss og er unnið að því að leysa það mál. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
„Starfsfólk skóla- og frístundasviðs hefur lagt mikið á sig til að greiða úr þeirri flækju sem myndaðist þegar ungbarnaleikskólinn 101 lokaði. Við viljum þakka dagforeldrum í Reykjavík og þeim ungbarnaleikskólum sem við höfum unnið með að lausn málsins fyrir alveg ótrúlega jákvæð viðbrögð og fyrir að hliðra til í starfsemi sinni til að geta leyst þessi vandræði sem foreldrar stóðu frammi fyrir varðandi dagvistunarúrræði fyrir börn sín,“ segir Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla og frístundasviðs, í fréttatilkynningu.
Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar hafa einnig lagt sitt af mörkum til að aðstoða foreldra við leit að lausum plássum hjá dagforeldrum. „Það er afar ánægjulegt að við höfum nú leyst málin með þessum hætti og ég á von á því að fljótlega finnist pláss fyrir þau átta sem eftir standa,“ segir Ragnar enn fremur í tilkynningu.