Barnahús verður stækkað

Yfir 60 börn bíða eftir að komast að í Barnahúsi.
Yfir 60 börn bíða eftir að komast að í Barnahúsi. mbl.is/Eggert

Stjórnvöld munu á næstu dögum auglýsa eftir nýju og stærra húsnæði undir Barnahús, en eins og mbl.is greindi frá í morgun eru yfir 60 börn sem beitt hafa verið ofbeldi á biðlista eftir þjónustu Barnahúss.

Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar funduðu í dag með ungmennum sem greindu frá sinni reynslu af kynferðislegu ofbeldi. Ungmennin sitja öll í sérfræðihópi barna hjá UNICEF og tóku þátt í gerð skýrslu UNICEF, sem kom út í vor, um Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og fornvarnir.

Átakanlegur fundur

Fundur unga fólksins og ráðherranna var haldinn að frumkvæði nýrrar ríkisstjórnar, að sögn Stefáns Inga Stefánssonar framkvæmdastjóra UNICEF. Hann áréttaði að það væri mikilvægt að heyra raddir barnanna og þakkaði áhuga stjórnvalda á erfiðum málaflokki.

Þau Eygló Harðardóttir velferðarráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sammæltust öll um að fundurinn með ungmennunum væri einn sá átakanlegasti sem þau hefðu nokkurn tíma setið.

„Það er auðvitað erfitt að hlusta á þessar sögur, en samt vekur það líka með manni ákveðna von að sjá hugrekkið sem þessi ungmenni hafa með því að takast á við lífið eins og þau gera,“ sagði Hanna Birna. „Þau voru ekki aðeins að segja okkur sína sögu og hvernig lífið hefur leikið þau, heldur voru þau líka að benda á leiðir til úrbóta og benda á hvernig þeirra saga gæti hjálpað okkur að gera betur. Það fannst mér mjög mikilvægt og uppbyggilegt.“

Starfsemin verði útvíkkuð

Að sögn Eyglóar Harðardóttur er samstaða um það innan ríkisstjórnarinnar að útvega stærra húsnæði fyrir Barnahús og er verið að leggja lokahönd á auglýsingu þess efnis. 

Börnin sem unnu að skýrslunni með UNICEF á Íslandi sóttu öll meðferð í Barnahúsi eftir að upp komst um ofbeldið sem þau voru beitt. Barnahús er eini staðurinn sem sinnir slíkri þjónustu og annar ekki lengur fjöldanum sem þangað leitar.

Í skýrslu UNICEF síðasta vor er m.a. lagt til að auk þess að stækka húsakostinn verði þjónustan víkkuð út þannig að unnt verði að taka þar á móti öllum börnum sem beitt hafa verið hvers kyns ofbeldi eða vanrækslu, ekki bara kynferðislegu ofbeldi.

Aðspurð hvort til standi að verða við þessu svaraði Eygló að brýnasta forgangsatriðið væri að taka á biðlistanum sem nú þegar er í Barnahúsi. Það verði m.a. gert með því að efla hópmeðferð í Barnahúsi. Eygló sagðist einnig gjarnan vilja sjá starfsemin útvíkkaða þannig að annars konar ofbeldi verði einnig sinnt og stuðningur við aðstandendur aukinn.

Mikilsvert að þolendur stígi fram

Bjarni Benediktsson sagði að skýrsla UNICEF og frásögn ungmennanna settu brotalamir kerfisins í samhengi og upplýsingarnar væru mjög sláandi.

„Ég held þó að flestir geti samt verið sammála um að á síðustu árum hafi margt breyst til hins betra,“ sagði Bjarni og bætti því við að hann fagnaði því að brotaþolar stígi nú æ oftar fram til að tala um sýna reynslu og hvað megi betur fara í kerfinu. 

„Það hjálpar okkur að bæta um betur,“ sagði Bjarni, enda væri áhrifameira að heyra persónulegar reynslusögur milliliðalaust.

Illugi Gunnarsson sagði sömuleiðis mikilvægt að þeir sem verði fyrir ofbeldi upplifi ekki sektarkennd hjá sér. „Það hefur skipt miklu mali að einstaklingar stígi fram og segi frá atburðinu, eftirmálunum og sinni líðan.“

Í því samhengi tjáði hann áhuga sinn á því að efla fræðslu og forvarnir í skólum. „Við þurfum að skoða, varðandi menntakerfið, hvernig er hægt að koma þessu betur til skila til krakkanna.“

Illugi Gunnarsson, Bjarni Benediktsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Eygló Harðardóttir …
Illugi Gunnarsson, Bjarni Benediktsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Eygló Harðardóttir ræddu í dag við ungmenni sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og ræddu við þau leiðir til að bæta kerfið. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka