Meirihluti vill klára viðræðurnar

AFP

Meirihluti er fyrir því að halda áfram viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) áfram samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Capacent vann fyrir samtökin Já Ísland sem hlynnt eru því að Ísland gangi í sambandið.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að 53% vilji ljúka viðræðunum en 35,1% vilji slíta þeim. 11% taka ekki afstöðu. Meirihluti kjósenda ríkisstjórnarflokkanna vilja hætta viðræðunum samkvæmt skoðanakönnuninni. Þannig vilja 61% kjósenda Framsóknarflokksins slíta viðræðunum en 27% halda þeim áfram. Hliðstæða sögu er að segja af Sjálfstæðisflokknum. 59% kjósenda hans vilja hætta viðræðunum en 32% halda þeim til streitu.

Hins vegar vilja 75% kjósenda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs halda áfram viðræðum um inngöngu Íslands í ESB en 21% hætta þeim. Mestur er stuðningurinn við áframhaldandi viðræður hjá kjósendum Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Þar vilja 91% klára viðræðurnar en einungis 4% annars vegar og 3% hins vegar slíta þeim.

Skoðanakönnun Capacents var gerð dagana 22.-29. ágúst og náði til 1.450 manns. Fjöldi svarenda var 801 og svarhlutfallið 55,2%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka