Varað við fjúkandi munum

Fólk er hvatt til að koma lausamunum í var áður …
Fólk er hvatt til að koma lausamunum í var áður en veðrið versnar enn. mbl.is/Golli


Almannavarnir hvetja landsmenn til að ganga frá lausum munum utandyra, útigrillum,  garðhúsgögnum, trampólínum og þess háttar, en tjón getur hlotist af fjúkandi munum í hvassviðrinu.

Í viðvörun frá Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir miklu hvassviðri eða stormi vestantil á landinu þegar líður á daginn. Einnig eru horfur á roki allra nyrst í nótt. Þá má gera ráð fyrir mikilli úrkomu á NV-landi og Tröllaskaga í kvöld og nótt, rigningu á láglendi en snjókomu ofan 150 -250 metra yfir sjó.

Búast má við mjög snörpum vindhviðum (35 til 40 m/s) sunnan- og vestanlands í kvöld, en á austanverðu landinu á morgun, samkvæmt viðvörun sem Veðurstofan hefur gefið út.

Spáð er ófærð með snjókomu á vegum þegar komið er í 150–250 metra hæð yfir sjó, sérstaklega um landið vestan- og norðanvert. Vegfarendur og ferðalangar eru hvattir til að kynna sér upplýsingar um veður og færð áður en lagt er af stað í ferðalög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert