Íslendingar vildu ekki færeysk skip

Frá Færeyjum.
Frá Færeyjum. mbl.is

Sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jacob Vestergaard, segir að Færeyingar hafi fengið þau skilaboð í fyrra að íslensk yfirvöld vildu ekki að færeysk skip kæmu til Íslands til að landa makríl og síld. 

Ástæðan var sú að íslensk stjórnvöld vildu sleppa við að þurfa að taka opinbera afstöðu með eða móti löndunarbanni ESB gagnvart Færeyjum. Þetta sagði Vestergaard í viðtali á Kringvarpinu, færeyska ríkisútvarpinu.

„Samkvæmt þessu er Grænland eina Norðurlandið sem ekki hefur neitað færeyskum skipum um að koma með makríl og síld,“ segir í frétt á veg Kringvarpsins.

Refsiaðgerðir Evrópusambandsins gagnvart Færeyingum þeirra tóku gildi á miðnætti á þriðjudag. Þær fela m.a. í sér löndunarbann á makríl og síld í höfnum innan sambandsins.

Hefur höfnum í Danmörku m.a. verið lokað fyrir færeyskum skipum sem hyggjast landa skip eða makríl. Þá bönnuðu yfirvöld í Noregi löndun á síld frá Færeyjum fyrir helgi.

Sjávarútvegurinn í Færeyjum hefur gert ráðstafanir til þess að selja færeyska síld og makríl til Rússlands og Afríkuríkja.

Viðtalið við Vestergaard má heyra á vef Kringvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert