Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og fyrrverandi innanríkisráðherra, segir að Háskóli Íslands hafi gerst sekur um brot á mannréttindum með því að meina Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, að halda námskeið við skólann.
Þetta kemur fram á bloggi Ögmundar.
„Nú fáum við þær fréttir úr Háskóla Íslands að einstaklingur sem beðinn hafði verið um að halda námskeið um tiltekið efni við skólann hafi fengið orðsendingu um afturköllun á þeirri beiðni vegna þess - að því er fram kemur - að dómstóll háskólaganganna hafi dæmt manninn úr leik. Allir vita um hvaða einstakling er að ræða enda honum hvergi hlíft í opinberri umræðu. Ástæðan fyrir því að ég nefni hér engin nöfn er einfaldlega sú að þessi umræða snýst ekki um einstaklinga heldur grundvallarreglur í réttarríki sem vill kallast mannréttindaþjóðfélag.
Með ákvörðun sinni hefur Háskóli Íslands gerst sekur um brot á mannréttindum og hljótum við að krefjast þess að hann endurskoði hana,“ skrifar Ögmundur á bloggsíðu sinni.