Fjóla Dögg Sigurðardóttir, formaður Félags læknanema og læknanemi á fimmta ári við læknadeild Háskóla Íslands, segir sérfræðilækna hafa sífellt minni tíma til að sinna kennslu læknanema.
„Deildarlæknum fer sífellt fækkandi þannig að vinnan sem þeir unnu áður lendir núna á sérfræðilæknum, kandídötum eða nemum,“ segir Fjóla Dögg. Forseti læknadeildar greindi ennfremur frá því á mbl.is að staða klínísks læknanáms væri í hættu.
„Það sem við í stjórn félags læknanema höfum hvað mestar áhyggjur af er að það er óneitanlega aukin krafa á læknanema í klínísku námi á spítalanum að taka að sér ábyrgð sem er ef til vill ekki tímabær. Allir eru að reyna að gera sitt besta og leggja sig fram í því ástandi sem hefur verið um nokkur ár, en þetta er löngu komið að þolmörkum eins og ítrekað hefur verið rætt um,“ segir Fjóla Dögg.
„Í umræðunni í sumar var mikið talað um að það væru allir læknar og kennarar farnir af landi brott en það er mikilvægt að hafa í huga að sem betur fer er enn er mikið af færum læknum á landinu sem hafa sinnt öflugri kennslu. Tími þeirra til kennslu er hinsvegar orðinn mjög takmarkaður, sérstaklega þegar deildarlæknum fer sífellt fækkandi.“
Fjóla Dögg segir að síðustu ár hafi borið á því að nemendur á 4.-6. árum hafi ekki fengið yfirferð á vinnubrögðum, sem eigi að vera til staðar á háskólasjúkrahúsi.
„Til þess erum við þarna. Tilgangurinn með klíníska náminu er að læra þau vinnubrögð sem eiga að vera til staðar á háskólasjúkrahúsi. Ef enginn er til staðar til að yfirfara þau vinnubrögð og benda okkur á það sem betur mætti fara hefur þetta klíníska nám ekki kennslugildi. Dagleg störf á spítalanum hafa bara fallið í hendur nema án þess að í því felist góð tækifæri til að læra og bæta klíníska færni.“
Fjóla Dögg segir að þrátt fyrir þetta teljist læknanemar í klínísku námi ekki til starfsfólks á spítalanum og njóta ekki sömu kjara og starfsfólk í mötuneyti spítalans, þrátt fyrir að sinna áðurnefndri vinnu kauplaust á spítalanum í allt upp að 15 til 16 klukkustundir á dag sem hluta af klíníska náminu.
„Staðan er gríðarlega alvarleg, ekki aðeins fyrir nemana heldur ekki síður fyrir sjúklinga og spítalann allan og framtíð hans. Góð handleiðsla í námi er grundvöllur þess að sjúklingar fái örugga þjónustu og að nemarnir geti sinnt starfi sínu í framtíðinni. Við höfum miklar áhyggjur af þessu.“
Fjóla Dögg segir stríða gegn betri vitund læknanema að taka að sér að sinna þessum störfum á deildunum.
„Eftir að deildarlæknum fækkaði fóru læknanemar í auknum mæli að aðstoða við dagleg störf spítalans sem deildarlæknar og kandídatar sinntu að mestu áður. Það leggjast allir á eitt til að ná að sinna því starfi sem þarf að sinna svo að endar nái saman í starfi deildanna, þar á meðal læknanemar,“ segir hún.
„Þetta stríðir oft gegn okkar betri vitund en það er erfitt að horfa aðgerðarlaus á deildarlækna og kandídata undir ómannlegu álagi án þess að leggja hönd á plóg. Við erum þó þarna til þess að læra, en ekki sinna þeim störfum sem spítalanum tekst ekki að manna. Það er að mínu mati langt síðan þetta hætti í rauninni að ganga upp.“
„Helstu áhyggjur okkar snúa ekki bara að stöðunni sem er uppi í dag þar sem nemendur á fjórða ári fá enn minni klíníska kennslu en áður, heldur einnig að kandídatsárinu, sem er hluti af okkar námi eftir að formlegu háskólanafni lýkur. Það þurfum við að taka til að fá lækningarleyfi á Íslandi.“
Á þessu kandídatsári segir Fjóla Dögg að áður hafi verið lögð áhersla á að kandídatar fengju kennslu og handleiðslu eldri og reyndari deildarlækna og sérfræðilækna.
„Þessi kennsla er nánast ekki til staðar í dag, sem veldur okkur miklum áhyggjum upp á framtíð lækninga í landinu. Flestir læknanemar hugsuðu sér áður að starfa í tvö til þrjú ár sem deildarlæknar að kandídatsárinu loknu á Íslandi en í dag eru nemar í mikilli óvissu vegna þess hve álagið hefur skert tækifærin til þessarar handleiðslu,“ segir hún.
Fjóla Dögg segir fækkun deildarlækna hafa valdið spítalanum miklum búsifjum. Þetta stafi af því að læknar starfa í minni mæli áfram á Íslandi að kandídatsári loknu. „Á Íslandi er boðið upp á takmarkað framhaldsnám fyrir lækna og því nauðsynlegt fyrir okkur að leita út fyrir landsteinana eftir frekari menntun. Eftir því sem kennslugildi inni á spítölum fer minnkandi, því fyrr leita ungir læknar erlendis til áframhaldandi menntunar og þjálfunar.“
"Við verðum að hugsa um okkar framtíðarsjúklinga og að við fáum sem besta þjálfun til að sinna þeim sem best. Því eru því miður sífellt fleiri sem hugsa til þess að sækja sér meira nám erlendis strax að náminu loknu í stað þess að starfa sem deildarlæknar hér á landi" segir Fjóla Dögg og telur ekki vafa á að þetta leiði til þess að ungir læknar fari fyrr erlendis og komi síður aftur til Íslands.
Fjóla Dögg veltir því upp hvort siðferðislegum skyldum læknanema sé teflt í tvísýnu með þessu.
„Við getum lent í að vera sett í aðstæður þar sem við vildum gera okkar besta til að hjálpa en þurfum samt á því að halda að vinnubrögð okkar séu yfirfarin. Það getur verið ákaflega erfitt fyrir ungt fólk, enn í námi með mikla ábyrgð á herðunum að standa síðan frammi fyrir því að ekki gefist tími til þessarar yfirferðar sem í námi okkar er gerð krafa um. Ástandið á Landspítalanum hefur verið mikið í umræðunni undanfarið en það hefur aldrei verið jafn slæmt.“
Hún telur þörf á kröftugu inngripi ef ætlunin er að halda uppi öflugu háskólasjúkrahúsi hér á landi. "Þjóðfélagið okkar er lítið og það eru mikil forréttindi að búa við jafngott heilbrigðiskerfi og við höfðum hér áður. Það er alls ekki sjálfsagður hlutur fyrir 300.000 þúsund manna þjóðfélag að eiga háskólasjúkrahús og greinileg þörf á að grípa kröftuglega inn í ef það á að gera tilraun til að halda því uppi til frambúðar. Hér á landi er mikið af færum læknum, en eftir því sem vinna fleiri einstaklinga er sett á þeirra herðar mun kennslan á háskólasjúkrahúsinu okkar alfarið bresta."