Magnús Karl Magnússon, deildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands og prófessor við sömu deild, segir útlit fyrir að ekki verði hægt að kenna læknanemum á fjórða ári lyflækningar sem skyldi vegna þrenginga á Landspítalanum.
„Ástandið á lyflækningasviði spítalans er þannig að við í læknadeild höfum af því verulegar áhyggjur. Klínískt nám er ekki formlega hafið á deildunum í ár, en það á að hefjast um miðjan september,“ segir Magnús Karl.
„Ég hef rætt við prófessor í lyflækningum um þetta og það er búið að setja upp áætlun til að þeir fái þá lágmarkskennslu sem við ætlumst til í læknadeildinni. Það er samt alveg ljóst að eins og staðan er í dag þá vantar fólk í þetta starfsnám læknanemanna.“
Magnús Karl segir starfsnámið vera flókna keðju þar sem til þess sé ætlast að allir hlekkir keðjunnar, ungir læknar, sérfræðilæknar og síðan læknanemar, séu til staðar. „Við höfum verulegar áhyggjur af þessu.“
Aðspurður út í hvort lágmarkskennsla myndi ekki ala af sér lágmarksheilbrigðiskerfi sagði Magnús Karl að klínísk kennsla við læknadeildina hefði alltaf verið mjög góð og það hefði verið einn af hennar styrkleikum. „Við erum hrædd um að hún verði ekki jafngóð og hún hefur verið. Þetta er ástand sem getur ekki gengið lengi og við biðlum til stjórnvalda að þetta ástand á lyflækningasviði verði leyst,“ sagði Magnús Karl.
Hann sagði ákveðna keðjuverkun komna af stað þar sem sífellt meira álag hvíldi á færri og færri herðum. „Þá eru hlutir eins og kennsla á deildum eitthvað sem er erfitt að sinna. Fyrir vikið lenda læknanemar „í hringiðunni“, en þeir fá ekki þá þjálfun sem við viljum að læknanemar fái við deildina.“
Til langframa segir Magnús Karl að klínískt nám við læknadeild Háskóla Íslands muni að óbreyttu bera skaða af og útskrifa verr þjálfaða lækna.