Starfsmanni bætt við á Stuðlum

Stuðlar er meðferðarstöð fyrir 12-18 ára unglinga.
Stuðlar er meðferðarstöð fyrir 12-18 ára unglinga. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Heimild hefur verið gefin til að fjölga um einn starfsmann á næturvöktum á meðferðarstöðinni Stuðlum, í kjölfar rannsóknar á meintum kynferðisbrotum meðal barna sem þar voru vistuð.

Barnaverndarstofa, sem rekur Stuðla, óskaði eftir því við velferðarráðuneytið að úttekt yrði gerð á starfsemi meðferðarstöðvarinnar í ljósi málsins sem kom upp fyrir rúmri viku og er nú til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um kynferðisbrot.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segist ekki vita hvenær úttektinni ljúki en telur að það muni ganga fljótt fyrir sig. Í millitíðinni sinnir Barnaverndarstofa innra eftirliti.

„Það eru athuganir í gangi á okkar vegum sem lúta að öryggi barnanna og eftirliti með þeim inni á deildinni,“ segir Bragi. Aðspurður hvort verklagi hafi að einhverju leyti verið breytt síðan málið kom upp segir hann að m.a. hafi verið ákveðið að bæta einum starfsmanni á næturvakt.

„Við höfum gert ýmislegt sem miðar að því að auka eftirlit og bæta, með því meðal annars að fá betri úrlausn í tæknibúnaði með hreyfiskynjurum og öryggismyndavélum,“ segir Bragi. Þessar aðgerðir verði svo endurskoðaðar þegar niðurstaða ráðuneytisins liggi fyrir. 

Það er einsdæmi í sögu Stuðla að mál af þessu tagi komi upp. Enn er óljóst hvað nákvæmlega átti sér stað í samskiptum unglinganna. Bragi sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að málið hefði fengið verulega á alla þá sem að því komu. Piltarnir þrír sem málið varðar eru ekki lengur á Stuðlum.

Hugsanlega tvö kynferðisbrot

Grunur um kynferðisbrot á Stuðlum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert