Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur konu sem handtekin var á Laugavegi í júlí.
Konan er ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni, en hún var m.a. sögð hafa hrækt á lögreglumanninn sem í kjölfarið handtók hana með umdeildum hætti.
Samkvæmt upplýsingum frá Embætti ríkissaksóknara hefur ákæran enn ekki verið birt konunni og er því ekki hægt að upplýsa nánar um innihald hennar.
Lögreglumaðurinn hefur einnig verið ákærður, fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi, en hann var gagnrýndur harðlega fyrir harkalegar aðfarir þegar hann slengdi konunni niður og dró hana eftir götunni. Samkvæmt formanni Landssambands lögreglumanna var um að ræða viðurkennda, norska handtökuaðferð sem kennd er í lögregluskólanum.
Samskipti konunnar og lögreglumannsins náðust á myndband sem fór eins og eldur í sinu um netið.
Konan sem hefur verið ákærð er 29 ára Reykvíkingur. Lögmaður hennar sagði í samtali við mbl.is í júlí að hún hafi leitað til læknis daginn eftir handtökuna og verið með sýnilega áverka víða á líkama.
Strax eftir helgina sem atvikið átti sér stað var lögreglumaðurinn sendur í leyfi og síðar leysti ríkislögreglustjóri hann frá embætti.