Jórunn Pála Jónasdóttir, fulltrúi stúdenta í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) segir sjóðinn enn gera kröfur um að stúdentar verði að standast 22 einingar til að eiga þess kost að fá lán hjá sjóðnum.
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi á föstudaginn dóm þar sem viðurkennd var krafa þess efnis að LÍN væri óheimilt að krefjast þess að námsmaður ljúki fleiri en 18 einingum á önn.
„Námsmaður reyndi að sækja um námslán í dag og fékk þau svör að lágmarksnámsframvindukrafa væri enn 22 einingar á önn, sem er þvert á niðurstöðu héraðsdóms síðan á föstudaginn,“ segir Jórunn. „Það er alveg klárt að meðan LÍN og ríkið eru ekki búin að áfrýja dómnum þurfa þau að hlíta niðurstöðu héraðsdóms.“
Jórunn segir að óháð áfrýjun sé stjórn LÍN að hundsa niðurstöðu héraðsdóms. „Við munum láta ráðuneytið vita af því að stofnun á þess vegum sé ekki að hlíta niðurstöðu dómstóls. Það hlýtur að vera alvarlegur hlutur,“ segir Jórunn.
Forsvarsmenn LÍN og ríkisins hafa sagst munu áfrýja dómnum, en honum hefur ekki verið formlega áfrýjað. Fái málið flýtimeðferð fyrir Hæstarétti eru bjartsýnustu spár þær að dómur fáist í málinu um miðjan október.
Lögfræðingar sem mbl.is ræddi við í kvöld eru ekki á einu máli um hvort LÍN sé skylt að fara eftir dómnum, eða hvort að áfrýjun hans fresti réttaráhrifum hans. Venjan er þó sú að ekki sé hægt að víkja sér undan dómi með því að áfrýja honum.
Þessir sömu lögfræðingar eru ennfremur ekki á einu máli um hvort áfrýjun dómsins fresti réttaráhrifum hans. LÍN og ríkið hafa ekki áfrýjað dómnum, en áfrýjunarfrestur er þrjár vikur frá uppsögu hans. Vangaveltur eru einnig uppi um að LÍN hafi tekið ákvörðun um að virða dóminn að vettugi þar sem sjóðurinn telji að Hæstiréttur muni ógilda niðurstöðu héraðsdóms.
Einn lögfræðingur velti upp þeim möguleika að námsmenn sendi hreinlega umsóknir á pappír utan við rafrænt umsóknarkerfi LÍN og sæki um lán fyrir 18 eininga námi með rökstuðningi á þá leið að þeir telji sjóðnum rétt að fara eftir dómi héraðsdóms. Hann segir sjóðnum skylt að svara öllum erindum sem honum berast.