„Ég biðst afsökunar fyrir hönd háskólans á að verklagsreglur hafi ekki verið nægilega skýrar sem leiddi til sárinda,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Stjórnmálafræðideild háskólans dró til baka beiðni um að Jón Baldvin Hannibalsson flytti fimm gestafyrirlestra á námskeiði um smáþjóðir og í alþjóðakerfinu við HÍ nú í haust.
Kristín segir að ekki hafi verið brotið á mannréttindum Jóns Baldvins, eins og hann hafi haldið fram m.a. í grein í Fréttablaðinu. Skólinn geri 2.000 samninga um stundakennslu á ári og það hendi að beiðni um framlag stundakennara sé afturkölluð. Kristín mun leita eftir fundi með Jóni Baldvini á næstunni.
„Þetta er leiðinleg og slæm umræða fyrir háskólann,“ segir Kristín.
„Farið verður yfir verklagsreglur um gestakennara í kjölfarið. Málinu er lokið af okkar hálfu,“ segir Ómar Kristmundsson, prófessor við stjórnmálafræðideild. Hann segir mikilvægt að sátt ríki um þá sem stunda kennslu við stofnunina. „Tekið var tillit til ólíkra sjónarmiða og m.a. hlustað á sjónarmið kynjafræðinnar um að skapa þolendavænt umhverfi,“ segir Ómar.
Nýjar verklagsreglur eru nú boðaðar; sömu reglur munu gilda um gestakennara og stundakennara, þ.e.a.s. að sameiginleg ákvörðun verður tekin á deildarfundi innan hverrar deildar í háskólanum um að fá tiltekna einstaklinga til kennslu.
Kristín Ingólfsdóttir tekur fram að deildir innan skólans hafi faglegt sjálfstæði, þar með talið ákvarðanir um skipulagningu kennslu.
Í síðustu viku sendi félagsvísindasvið Háskóla Íslands frá sér tilkynningu þar sem sagði m.a.: „Sú ákvörðun að Jón Baldvin Hannibalsson muni ekki halda gestafyrirlestra við háskólann næsta vetur er fyrst og fremst tekin til að gera skólanum kleift að sinna hlutverki sínu og tryggja nauðsynlegan frið um starfsemina.“
„Við ætlum ekki að taka henni þegjandi,“ skrifuðu femínistarnir Helga Þórey Jónsdóttir og Hildur Lilliendahl um ráðningu Jóns Baldvins í grein sem birtist á vefritinu Knúz.is í ágúst.
Þær lýstu yfir óánægju sinni vegna fyrirhugaðra starfa Jóns Baldvins við Háskóla Íslands og sögðu það niðurlægjandi fyrir þolendur Jóns og þolendur kynferðisofbeldis um allan heim.
Baldur Þórhallsson prófessor ákvað í kjölfarið, að sögn Ómars, að draga til baka þá ákvörðun að fá Jón Baldvin sem gestakennara.
Jóni Baldvini var tilkynnt þessi ákvörðun 29. ágúst sl. „Ég fór fram á að skýrt yrði opinberlega frá ástæðunni. Þetta er ekki þeirra einkamál heldur varðar háskóla þjóðarinnar,“ sagði Jón Baldvin við Morgunblaðið.
Árið 2005 kærði ung kona Jón Baldvin til lögreglu fyrir ætluð kynferðisbrot á árunum 1994-2001, sem fólust m.a. í bréfum sem Jón sendi konunni þegar hún var á aldrinum 14-17 ára.