Breytingar en engin bylting

Verði ríkisstjórnarskipti í Noregi að loknum þingkosningunum 9. september næstkomandi má búast við breyttum áherslum en varla neinum byltingum. Þetta var meðal þess sem fram kom á hádegisfundi í Norræna húsinu í dag á vegum norska sendiráðsins á Íslandi, Norræna félagsins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands auk Norræna hússins.

Marit Lillealtern, sendiráðsritari og staðgengill sendiherra Noregs, flutti stutt erindi um þingkosningarnar og stöðuna í norskum stjórnmálum. Þar á meðal áherslur stjórnmálaflokkanna, fylgisþróun til þessa og hvernig kosningabaráttan hafi farið fram. Kom meðal annars fram í máli hennar að gengi litlu flokkanna gæti skipt sköpum en hvort sem miðju-vinstristjórn eða miðju-hægristjórn verður við völd eftir kosningarnar er ljóst að litlir flokkar verða þar í lykilhlutverki.

Eftir erindi Lillealtern hófust pallborðsumræður með þátttöku Svavars Gestssonar fyrrverandi ráðherra og sendiherra, Sivjar Friðleifsdóttur fyrrverandi ráðherra, Eiðs Guðnasonar fyrrverandi ráðherra og Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur prófessors og fyrrverandi þingmanns og sendiherra. Fundarstjóri var Bogi Ágústsson, fréttamaður.

Framfaraflokkurinn ekki sami flokkur og áður

Svavar ræddi meðal annars um stöðu norska Framfaraflokksins sem væri að hans mati afskaplega ábyrgðarlaus flokkur og vísaði hann þar meðal annars til hugmynda innan hans um meðferð olíusjóðs Norðmanna. Hins vegar hefði Framfaraflokkurinn rekið aðdáunarverða kosningabaráttu og meðal annars lagt fram eigið fjárlagafrumvarp.

Fulltrúar í pallborðinu voru almennt sammála um að næsta ríkisstjórn Noregs yrði væntanlega miðju-hægri stjórn með þátttöku Framfaraflokksins sem væri sögulegt enda hefði hann aldrei áður átt aðild að ríkisstjórn landsins. Flokkurinn væri hins vegar ekki sá sami og áður og nefndi Svavar sem dæmi um að hann væri nú talinn í húsum hæfur að til stæði að gera einn helsta talsmann flokksins í utanríkismálum að sendiherra.

Siv Friðleifsdóttir sagðist telja að það gæti haft mikil áhrif á stjórnmálin í öðrum ríkjum og þá ekki síst hinum Norðurlöndunum ef Framfaraflokkurinn færi inn í ríkisstjórn í Noregi. Nefndi hún til að mynda Danmörku þar sem Danski þjóðarflokkurinn hefði til þessa ekki átt beina aðild að ríkisstjórnum. Taldi hún að meðal þeirra breytinga sem gætu orðið með mögulegri miðju-hægristjórn væri breytt stefna í innflytjendamálum og aukin áhersla á einkavæðingu.

Vinstristjórnin ekki unnið afrek en haldið sjó

Eiður bætti því við að Framfaraflokkurinn hefði lengi vel mælst annar stærsti stjórnmálaflokkur Noregs og það hlyti að koma að því að slíkur flokkur færi í ríkisstjórn. Tók hann undir að Framfaraflokkurinn væri ekki sami flokkur og áður. Hann sagði ennfremur að sitjandi vinstristjórn hefði ekki unnið nein afrek og meira haldið sjó. Vísbendingar væru um að fólk væri orðið leitt á henni eftir átta ára valdatíma.

Sigríður Dúna tók undir með öðrum þátttakendum í pallborðinu að Framfaraflokkurinn væri annar flokkur í dag en áður. Hins vegar hefði stefna hans til að mynda í innflytjendamálum haft mikil áhrif á hina flokkana. Þá hefði leiðtogi hans, Siv Jensen, þá tilhneigingu að ganga lengra þegar hinir flokkarnir tækju undir með Framfaraflokknum.

Fundurinn var vel sóttur og var salurinn þétt setinn. Þar á meðal voru nokkrir þingmenn s.s. Katrín Jakobsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert