Í vanda vegna breytinga á reglum LÍN

Íris Dröfn Árnadóttir er verkfræðinemi við Háskólann í Reykjavík sem segist lenda illa í því ef Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) heldur fast við sitt og krefur námsmenn enn um að ljúka 22 einingum í stað 18.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst á föstudaginn að þeirri niðurstöðu að sjóðnum væri óheimilt að krefja stúdenta um fleiri en 18 einingar að lágmarki til að fá námslán frá sjóðnum.

 „Í nóvember í fyrra eignaðist ég stelpu. Það gerði það að verkum að á haustönninni í fyrra tók ég ekki fullt nám, heldur lauk einungis 18 einungum, eins og lágmarkið var. Í vor reiknaði ég svo út að ég ætti 42 einingar eftir. Þá tók ég 6 einingar á vorönninni, þannig að ég gæti skipt honum 36 niður í 18 einingar á hvorri önn skólaárið 2013 - 2014,“ segir Íris Dröfn. „Ég var búin að skipuleggja mig út frá þessu.“

Hún segir að þegar breytingarnar voru tilkynntar, einum og hálfum mánuði áður en skólinn byrjaði, að hún þyrfti að taka að lágmarki 22 einingar á önn til að fá námslán.

„Núna er ég búin að skrá mig í 24 einingar, þar sem það eru bara 6 eininga áfangar í verkfræðinni í HR. Ég reyndi að finna áfanga í öðrum deildum, en þá urðu alltaf árekstrar á stundatöflunni minni. Núna er ég því í 24 einingum, þar af einum áfanga sem ég hef ekki áhuga á að taka en verð að gera til að fá þessi lán,“ segir Íris Dröfn.

Íris Dröfn bendir einnig á að ekki séu aðeins framfærslulánin undir hjá henni, heldur þurfi hún líka að ljúka 22 einingum til að fá skólagjaldalán. Hún hafi farið á skrifstofur LÍN til að leita svara, en alltaf fengið þau svör að svona sé þetta bara. „Ég vorkenni samt starfsfólkinu þarna, því það hefur ekkert gert af sér. En einhversstaðar þarf maður að láta óánægju sína í ljósi.“

Hefur ekki neikvæð áhrif á aðsókn í háskóla

Guðrún Ragnarsdóttir er framkvæmdastjóri LÍN. „Þriggja vikna frestur til þess að áfrýja málinu er ekki útrunninn og fyrsta vikan er ekki einu sinni liðin. Og ef að ákveðið verður að áfrýja munu réttarfarsleg áhrif héraðsdóms frestast á meðan. Menn verða að sýna biðlund,“ segir Guðrún.

Guðrún segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að stúdentar sæki um námslán jafnvel þó þeir sjái ekki fram á að klára 22 einingar. „Ef námsmenn gætu ekki sótt um lán væri allt önnur staða uppi á borði,“ segir Guðrún.

Hún telur að deilan hafi ekki neikvæð áhrif á háskólann. „Við sáum fréttir nýlega af
metaðsókn í HÍ svo að þetta hefur ekki haft neikvæð áhrif á það, en klárlega eru einhverjir námsmenn sem að ég veit að þetta snertir. Það er eðlilegt að hver og einn hugsi út frá sínum þörfum, en stundum þurfa menn aðeins að standa upp og horfa yfir skóginn en ekki bara horfa yfir laufblöðin sem blasa við þeim,“ segir Guðrún.

Ótrúlegt af LÍN að hundsa dóminn

Íris Dröfn segir spila mikið inn í að þurfa að púsla þessu saman, sérstaklega í ljósi þess að hún eigi tæplega ársgamla dóttur. „Mér finnst mjög erfitt að vera í þessari óvissu. Mér finnst furðulegt að þau komist upp með að fara ekki eftir dómi héraðsdóms. Ég velti fyrir mér hvort ég eigi að taka sénsinn og taka bara 18 einingar í þeirri von að Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna, eða á ég að bíða fram í október eða nóvember og sitja þennan áfanga sem ég hef ekki áhuga á upp á von og óvon með niðurstöðu Hæstaréttar?“ spyr Íris Dröfn.

„Ég ætla mér samt að klára þetta nám. Það verður basl, en ég ætla að klára það, þó svo að það bitni á einkunnum og þýði meiri fjarvistir frá dóttur minni.“ Hún segir ekki kost í stöðunni að bíða bara og sjá hvað gerist. 

„Síðasti dagur til að skrá sig úr áföngum í HR er 20. september. Ef ég skrái mig úr síðar er ég í rauninni fallin í þeim áfanga. Mér finnst mjög skrýtið að okkur námsmönnum sé bara sagt að bíða og sjá. Ef þetta væri dæmdur glæpamaður sem ætlaði að áfrýja til Hæstaréttar, fengi hann þá bara að ganga laus frá því hann er dæmdur í fangelsi og þangað til hann tekur ákvörðun um að áfrýja?“

„LÍN verða bara að sætta sig við að það var dæmt þeim í óhag. Ef einhver almennur borgari myndi ákveða að fara bara ekki eftir dómi þá yrði eitthvað mikið sagt,“ segir Íris Dröfn. „Það eru örugglega margir námsmenn í verri stöðu en ég, en þetta hefur mikil áhrif á mig.“

Íris Dröfn Árnadóttir
Íris Dröfn Árnadóttir
Guðrún Ragnarsdóttir
Guðrún Ragnarsdóttir mbl.is/Þorkell Þorkelsson
Stúdentaráð Háskóla Íslands vann mál gegn LÍN og ríkissjóði, þar …
Stúdentaráð Háskóla Íslands vann mál gegn LÍN og ríkissjóði, þar sem viðurkennt var ómögmæti þess að LÍN krefði nemendur um að lágmarki 22 einingar, en ekki 18 mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert