Útlagar dæmdir í fangelsi

Skjáskot af vefsvæði norsku vélhjólasamtakanna Outlaws, en talið er að …
Skjáskot af vefsvæði norsku vélhjólasamtakanna Outlaws, en talið er að íslensku samtökin séu sprottin þaðan. Mynd/outlawsmc.no

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag þrjá karlmenn í sex til átján mánaða fangelsi fyrir aðild að ráni, frelsissviptingu og hylmingu. Tveir mannanna réðust inn á heimili karlmanns á sjötugsaldri, ógnuðu honum og stálu frá honum átta skotvopnum. Lögregla sagði þá á sínum tíma tengda Útlögum (e. Outlaws).

Mennirnir játuðu báðir að hafa þann 1. júní sl. ruðst inn á heimili mannsins í Grafarvogi með andlit sitt hulið, annar vopnaður hnífi, bundið hendur og fætur mannsins og farið ránshendi um íbúðina.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir mönnunum sagði að brot þeirra væri þess eðlis að það teldist vera svívirðilegt í augum almennings og þar með hætta á að það ylli óróa í samfélaginu ef þeir yrðu látnir lausir.

Þriðji maðurinn var sakfelldur fyrir hylmingu. Hann hlaut vægustu refsinguna, sex mánaða fangelsi.

Lögregla lagði mikinn þunga í rannsókn málsins og fór í húsleitir víða vegna hennar. Meðal annars fundust vopn í Hafnarfirði, í húsnæði sem tengist einnig samtökunum Útlögum. Leitað var á tveimur öðrum stöðum í Hafnarfirði og fundust þá nokkur vopn til viðbótar. Þau húsnæði tengdust einnig Útlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka