Háskólaráð Háskóla Íslands fundaði í dag. Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, sagði að fjármál háskólans hafi verið aðalumræðuefni fundarins en mál Jóns Baldvins Hannibalssonar hafi einnig borið á góma.
„Við ræddum þetta mál eins og önnur mál sem eru á döfinni. Ég fór yfir tilurð málsins og stöðu. Það er í rauninni mjög skýrt hvernig í þessu liggur. Í reglum skólans er alveg skýrt að deildirnar eru faglega ábyrgar fyrir kennslu og áhersla lögð á lýðræðisleg vinnubrögð og faglegt sjálfstæði deilda. Það er líka gert ráð fyrir að fræðasvið setji reglur vegna ráðninga stundakennara,“ segir Kristín.
Hún segir ráðningar 2.000 stundakennara sem kenna við skólann á hverju ári yfirleitt ganga greiðlega fyrir sig. „Umsjónarkennari hefur samband við tilvonandi stundakennara, en það er deildarforseti sem tekur ábyrgð fyrir hönd deildar og fer yfir málið áður en samningur er gerður, en það var ekki gerður samningur í þessu tilfelli.“
Kristín segist muni óska eftir fundi með Jóni Baldvin von bráðar og biðja hann persónulega afsökunar fyrir það að verklagsreglur varðandi samskipti við hann hafi ekki verið skýrar. „Það er aðalerindi mitt, að skýra fyrir honum verklag hjá okkur og biðja hann afsökunar á þeim óþægindum sem hann hefur orðið fyrir vegna óskýrra verklagsreglna af hálfu deildarinnar.“