Það hefur vakið athygli að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, var í ósamstæðum skóm þegar hann hitti Barack Obama, Bandaríkjaforseta, í kvöldverðarboði í Stokkhólmi í gærkvöldi ásamt forsætisráðherrum hinna Norðurlandanna. Annars vegar hefðbundnum spariskó og hins vegar svörtum Nike-íþróttaskó á vinstrifæti.
„Hann er búinn að vera bólginn vegna sýkingar í vikunni, og það espaðist allt upp eftir flugferðirnar hingað svo hann var ómögulegur í gær og ekki séns að komast í annan skó. Það er nú allur leyndardómurinn. Ekkert fashion statement, þó það væri nú eiginlega skemmtilegri frétt sko,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, í samtali við mbl.is. Spurður um alvarleika meiðslanna segir hann að þetta hafi verið mjög slæmt í gær en horfi til betri vegar í dag. Ráðherrann mun vera kominn á sterk sýklalyf við sýkingunni.
Jóhannes skrifar eftirfarandi um málið á Facebook-síðuna sína rétt í þessu:
„Ég sé að Stóra-Strigaskómálið er að yfirtaka fréttir og samfélagsmiðla nú eftir hádegið. Hér í Stokkhólmi veltum við því fyrir okkur í gamni eftir fundinn í gærkvöldi hve langan tíma það myndi taka fólk og fréttamenn að spotta þetta. Svarið við spurningunni er að forsætisráðherra er búinn að vera stokkbólginn vegna heiftarlegrar sýkingar í vikunni. Flugferðirnar hingað út espuðu bólguna upp svo að ekki var um annað að ræða. Nú er bara spurningin: Startar þetta nýju tískuæði meðal þjóðarleiðtoga...?“