Karlmaður á sextugsaldri sem ákærður hefur verið fyrir umfangsmikil fjársvik er enginn nýgræðingur í þeim efnum. Hann hefur áður hlotið dóm fyrir slík brot.
Nýjasta mál mannsins, Sigurðar Kárasonar, er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur þessa dagana. Hann er sakaður um að svíkja á annað hundrað milljónir króna af sextán manneskjum. Meðal fórnarlamba Sigurðar er Örn Bárður Jónsson prestur sem greiddi honum tæpar tíu milljónir sem nota átti í gjaldeyrisviðskipti.
Sigurður hefur lengi verið á milli tannanna á fólki. Hann byrjaði með leiktækjasal í Einholti í Reykjavík snemma á níunda áratug síðustu aldar en færði sig þaðan yfir í tívolírekstur og svo einnig hótelrekstur.
Frægur var dómur sem Sigurður hlaut fyrir að svíkja fé út úr ekkju með elliglöp, um þrjátíu milljónir króna. Þau svik stóðu yfir í tvö ár.
Einna helst fjölmiðla fjallaði DV ítarlega um viðskipti Sigurðar Kárasonar á árinu 1997. Í einni grein blaðsins sagði frá því að Sigurður réð sig til viðhaldsvinnu fyrir hjónin Aron Guðbrandsson, sem oftast var kenndur við Kauphöllina, og Ásrúnu Einarsdóttur.
Eftir það hafi hann verið mikið á heimili þeirra og ekki síst eftir að Aron lést. Meðal annars nefndi Sigurður son sinn í höfuðið á Aroni. „Í framhaldinu tók Sigurður að vera mjög áberandi í viðskiptalífinu. Heimildamenn DV, sem kunnugir voru þeim Aroni og Ásrúnu, fullyrða að millifærslurnar séu aðeins lokaspretturinn á langri sögu, sögu sem fyrr eða síðar muni verða sögð og segi frá milli 80 og 100 milljóna fjárstreymi út úr dánarbúi Arons Guðbrandssonar í alls konar viðskipti sem fæstum sér nokkurn stað lengur,“ sagði í frétt DV.
Tívolíævintýrið í Hveragerði er Sigurðar. Það er saga átaka og deilna en tívolíið glímdi nær ávallt við rekstrarvanda. Einn þeirra sem lagði tívolíinu fé greindi frá því í samtali við DV að hann hefði verið blekktur. Hann hafi fengið að sjá gögn sem sýndu allt aðra og betri stöðu en hún var í raun og veru.
Tívolíið varð á endanum gjaldþrota og reksturinn lagðist af. Hótel Borg, sem hann keypti einnig, var boðin upp á nauðungaruppboði og er það ekki það fyrsta þar sem Sigurður Kárason kom við sögu.
Í september 1989 var Sigurður dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjársvik og fyrir að hafa haldið eftir vörslufé af launum starfsmanna tívolísins og Hótel Borgar.
Sigurður var svo í maí 1999 dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir misneytingu en hann fékk Ásrúnu, ekkju Arons, til að taka mikið fé út af reikningi sínum og ráðstafa til sín. Sagði að brotin væru stórfelld og fælu í sér trúnaðarbrot gegn gamalli konu sem treysti vináttu hans.
Eins og kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var Sigurður náðaður á sínum tíma. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra dómsmála, gerir náðunina að umtalsefni á vefsvæði sínu. „Sá sem fellst á náðunarbeiðnina er náðunarnefnd. Hún kemst að hinni efnislegu niðurstöðu. Hafi svikahrappurinn verið náðaður á sínum tíma eins og fréttastofan fullyrðir gefur það ekki rétta mynd af málinu að bendla náðunina við forseta Íslands, hann er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, þar á meðal náðunum.“
Fyrirtaka var í máli Sigurður í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun en niðurstaða ætti að fást í málið á næstu vikum.