Fulltrúi Vinstri grænna í bæjarstjórn Akureyrar hvetur bæjaryfirvöld til að skoða alvarlega þann möguleika að taka á móti alla vega hluta þess fjórtán manna hóps sem flóttamannanefnd hefur lagt til að boðið verði hæli hér á landi á næstu mánuðum. Þannig geti bærinn lagt sitt af mörkum til mannúðarmála í heiminum.
„Vert er að benda á að allir innviðir samfélagsins hér á Akureyri eru sterkir, við erum fjölmenningarlegt bæjarfélag líkt og Akureyrarvaka um síðustu helgi bar glöggt vitni. Þá gekk móttaka flóttafólks frá fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu árið 2003 mjög vel og við búum að þeirri þekkingu og reynslu sem þá skapaðist. Því má ljóst vera að Akureyrarbær er vel í stakk búinn að veita flóttafólki skjól,“ segir í hvatningu Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur, fulltrúa Vinstri grænna í bæjarstjórn Akureyrar.
Þá vísaði hún til þess að í Staðardagskrá 21 sem samþykkt var í bæjarstjórn í maí 2010 stæði: „Boðið verði upp á að taka á móti hópi flóttamanna í samstarfi við flóttamannaráð á a.m.k. tíu ára fresti.“
Frétt mbl.is: Hinsegin fólk frá Íran til Íslands