Eru í vari í höfninni

Grindhvalavaðan í höfninni í Rifi
Grindhvalavaðan í höfninni í Rifi mbl.is/Alfons Finnsson

Íbúar í Rifi á Snæfellsnesi telja að allt að tvö til þrjú hundruð grindhvalir hafi komið inn í höfnina og í fjöruna í bænum og í áttina að Ólafsvík í kvöld. Einhverjir tugir drápust þegar þeir syntu upp í fjöruna en í kvöld er höfnin full af hval og engu líkara en hann hafi farið þangað í var í óveðrinu sem nú gengur yfir.

Að sögn heimamanna sem mbl.is hefur rætt við í kvöld synda hvalirnir um í höfninni og virðist ekki væsa um þá þar. Varla er hundi út sigandi á norðanverðu Snæfellsnesi, allt að 40 metrar á sekúndu í verstu hviðunum og úrhelli.

Vegna veðurs er erfitt að meta það nákvæmlega hversu margir hvalirnir eru, hvort heldur sem það er í höfninni eða í fjörunni allt í kringum Rif.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem grindhvalir synda upp í fjöruna í Rifi en menn rekur ekki minni til að þeir hafi áður synt inn í höfnina.

Fréttaritari mbl.is Alfons Finnsson tók þetta myndskeið af hvölunum í Rifi í kvöld.

Grindhvalavaða í höfninni í Rifi

Hvalreki í fjörunni í Rifi á Snæfellsnesi
Hvalreki í fjörunni í Rifi á Snæfellsnesi Ljósmynd Stefán Ingvar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert