Hættir notkun efna sem eyða gróðri

mbl.is

Notkun Vegagerðarinnar á varasömum efnum við gróðureyðingu og í allri vegagerð hefur minnkað mikið á síðustu árum og stefnt er að því að hætta notkuninni alfarið. Vegagerðin segir að gróðureyðing í vegköntum sé eigi að síður mikilvæg til að viðhalda umferðaröryggi og minnka snjósöfnun.

Meðal markmiða stjórnvalda til ársins 2013 er að markvisst verði unnið að því að skipta út eiturefnum og hættulegum efnum. Vegagerðin hefur unnið að þessu markmiði undanfarin ár og skipt þessum efnum út fyrir efni eða aðferðir sem eru hættuminni fyrir heilsu og umhverfi og er það stefna Vegagerðarinnar, bæði umhverfisstefna og innkaupastefna, að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða.

Á vef Vegagerðarinnar segir að Vegagerðin hafi lagt áherslu á að draga fyrst úr þeim varasömu efnum sem hafa verið notuð í miklu magni. Má þar m.a. nefna að fram til ársins 2003 voru notaðir að meðaltali 75 þúsund lítrar af vegmálningu með leysiefnum við vegmerkingar árlega, en skipt var yfir í vatnsmálningu árið 2004, og fram til ársins 2010 voru notaðir að meðaltali 340 þúsund lítrar af hvítspíra við útlögn klæðninga á vegum, en eftir áralangar tilraunir við að draga úr notkun spírans hætti Vegagerðin notkun hans árið 2010 og notar nú lífolíu í hans stað.

Snjósöfnun er víða vandamál á þjóðvegum, sérstaklega þar sem hár gróður vex í vegköntum, vegna þess að gróður eykur hrjúfleika yfirborðs og dregur úr vindi. Snjósöfnun og skaflamyndun á vegi skapar hættulegar aðstæður fyrir vegfarendur. Auk þess getur gróðurinn dregið úr sjónlengdum og skyggt á vegstikur og skilti. Vegagerðin þarf þess vegna að halda háum gróðri í vegköntum í skefjum. Frá árinu 2009 hefur Vegagerðin notað að meðaltali 100 lítra á ári af gróðureyðunum Roundup og Clinic sem innihalda virka efnið Glyphosate.

Vegagerðin fékk upplýsingar frá Umhverfisstofnun um innflutning á gróðureyðunum Roundup og Clinic, sem innihalda virka efnið Glyphosate, á árunum 2009-2012. Upplýsingarnar eru byggðar á gögnum frá Vinnueftirlitinu. Notkun Vegagerðarinnar var 13% af heildarinnflutningi á árinu 2009, 2% árin 2010 og 2011 og 5% á síðastliðnu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert