Á milli fimmtán og tuttugu grindhvalir eru nú við fjöruna í Bug, rétt við Ólafsvík. Einungis einn hvalur er enn eftir í höfninni í Rifi á Snæfellsnesi en hvalir fylltu nánast höfnina í óveðrinu í gærkvöldi.
Mjög slæmt veður var á norðanverðu Snæfellsnesi í gærkvöldi og fór vindurinn í rúmlega 40 metra á sekúndu í verstu hviðunum. Úrhelli fylgdi rokinu og ekki var hundi út sigandi að sögn heimamanna sem mbl.is ræddi við í gærkvöldi og í morgun.
Svo virðist sem grindhvalavaðan hafi farið víðar en áður var talið og verið í ósnum við Fróðá og víðsvegar í fjörunni milli Rifs og Ólafsvíkur. Nokkur fjöldi hvala drapst og var hluti þeirra skorinn af heimamönnum í gærkvöldi.
Ekki sáust mörg hræ í fjörunni núna en þeim hefur væntanlega skolað á haf út. Nú er háflóð á þessum slóðum en fleiri dauða hvali gætu fundist þegar fjarar út á ný.
Myndskeið sem Alfons Finnsson fréttaritari mbl.is tók í morgun við Bug