Húsleit hjá Eimskip og Samskipum

Úr safni.
Úr safni. mbl.is/Frikki

Samkeppniseftirlitinu hefur hafið húsleit á starfstöðvum Eimskipafélags Íslands hf. og hjá dótturfélögunum Eimskip Ísland ehf. og TVG Zimsen ehf. Húsleitin er gerð vegna rannsóknar á ætluðum brotum á 10. og 11. gr. samkeppnislaga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip. Hvorki hefur náðst í stjórnendur félagsins né forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins.

Einnig var framkvæmd húsleit í höfuðstöðvum Samskipa samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu. Von er á fréttatilkynningu frá Samskip vegna málsins. 

Samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga eru allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað eru bannaðar. Bann þetta tekur m.a. til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem:

  • a. áhrif hafa á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti, 
  • b. takmarka eða stýra framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu, 
  • c. skipta mörkuðum eða birgðalindum, 
  • d. mismuna viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra, 
  • e. setja sem skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.

Samkvæmt 11. gr laganna er.misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð. Misnotkun skv. 1. mgr. getur m.a. falist í því að:

  • a. beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir, 
  • b. settar séu takmarkanir á framleiðslu, markaði eða tækniþróun, neytendum til tjóns, 
  • c. viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt, 
  • d. sett sé það skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert