Hræ grindhvala sem gengu á land á Snæfellsnesi á laugardagskvöld verða væntanlega urðuð, að sögn Kristins Jónassonar, bæjarstjóra Snæfellsbæjar. Búið er að fjarlægja mikið kjöt og spik af hvölunum en eftir eru beinagrindur, hvalshausar og innyfli.
Von var á vísindamönnum í gær til að skoða hræin. Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands fer vestur í dag.
„Ætli það séu ekki tíu til fimmtán hræ í landi Snæfellsbæjar, þau eru bæði í grjótgarðinum í höfninni á Rifi og utan Ennis. Heilbrigðiseftirlitið bað okkur að hinkra með að fjarlægja hræin fyrr en það hefði komið hingað,“ segir Kristinn í Morgunblaðinu í dag.