„Píratar munu vinna á sambærilegan máta og Hreyfingin. Við skilgreinum okkur ekki sem andstöðu heldur minni hluta sem vinnur út frá málefnunum hverju sinni. Ef málefni eru algerlega andstæð okkar stefnu munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að spyrna við og leita uppbyggilegra lausna.“
Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um munnlega skýrslu forsætisráðherra um störf ríkisstjórnar hans og verkefni hennar framundan. Lýsti hún óánægju sinni með framgöngu ríkisstjórnarinnar til þessa einkum í málefnum skuldugra heimila. Af þeim sökum hafi hana langað að draga upp stríðsöxina og fara beint í skotgrafirnar.
„Mér mundi líða miklu betur á meðan á því stæði að höggva í ímyndaða andstæðinga og láta allt flakka sem hefur komið upp í huga minn í sumar þegar ég hef fylgst í forundran með verkum ríkisstjórnarinnar. En vil ég standa á vígvelli í næstu fjögur ár þar sem spilað er inn á lægstu hvatir mannlegs eðlis?“ sagði hún ennfremur og sagðist ekki vilja láta það eftir sér. Hún vildi frekar höfða til betri vitundar þingheims.
„En upphafið lofar ekki góðu og því kalla ég eftir því að ríkisstjórnin hverfi af villu síns vegar og muni sín eigin áköll um breytt vinnubrögð þegar formenn ríkisstjórnarflokkanna voru hinum megin við borðið og sýni að það var ekki sjónarspil heldur raunverulegur vilji,“ sagði Birgitta og ennfremur:
„Látum þetta kjörtímabil ekki einkennast af sundrungu. Finnum þau stef sem ríma saman. Það hljóta allir að vera sammála um að við þurfum að laga grunnstoðirnar,“ og vísaði þar til vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem farið hefði fram á síðasta kjörtímabili og sem mætti ekki glatast.