Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, vakti athygli á þingfundi Alþingis í dag þegar hann ávarpaði þingmenn og ráðherra ekki sem háttvirta og hæstvirta heldur sem herra og frúr. Forseti Alþingis gerði athugasemd við þetta en Jón Þór sagðist ekki ætla að láta af ávarpi sínu.
Hann las upp úr bókinni Háttvirtur þingmaður þar sem fram kemur að um sé að ræða þingvenju. Hann muni sýna þingmönnum og ráðherrum virðingu en sé á móti því að teknir séu upp óverðskuldaðir virðingatitlar. Þingmenn og ráðherrar hafi ekki unnið sér inn fyrir því að vera ávarpaðir sem háttvirtir og hæstvirtir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist sammála Jóni Þór um að þingmenn og ráðherrar verði að vinna sér inn virðingu en ósammála um að einn þingmaður geti breytt venjum og hefðum sem viðgengist hafa í áratuga rás.