„Engar skemmdir unnar“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á Alþingi í dag.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

„Engar skemmdir hafa verið unnar á einu eða neinu. Aðildarumsókn hefur ekki verið afturkölluð og engu hefur verið slitið,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er hann gaf munnlega skýrslu um Evrópumál.

Gunnar Bragi sagði að búið væri að leysa upp samninganefnd Íslands og hópa sem tengjast aðildarviðræðunum, og að ekki yrðu haldnar fleiri ríkjaráðstefnur.

Hann segir að íslensk stjórnvöld hafi staðið að málum í góðri sátt við Evrópusambandið. „Enda bera viðbrögð Evrópusambandsins ekki merki annars en að sambandið hafi fullan skilning á ákvörðun okkar um hlé á aðildarferlinu,“ sagði Gunnar Bragi.

Hann segir að ríkisstjórnin hafi í störfum sínum fylgt stefnumiðum sínum með ákveðnum hætti. Þetta sé í samræmi við afstöðu ríkisstjórnarflokkanna í Evrópumálum.

Þá segir Gunnar Bragi að viðræður standi nú yfir við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um gerð boðaðrar úttektar í Evrópumálum. „Sú úttekt verður svo tekin til umræðu hér á þinginu og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki er tímabært að velta fyrir sér framhaldi aðildarferilsins fyrr en skýrslan hefur verið gerð, “ sagði hann og bætti við að hann hlakki mjög til málefnanlegrar umræðu um efni hennar á þingi.

„Ég virði sjónarmið þeirra sem telja að hag Íslands kunni að vera betur borgið innan ESB. Ríkisstjórnin er einfaldlega ekki sammála þeim og þar skilur á milli. Ég tel að í svo viðamiklu máli sem þessu sé algjör forsenda að stuðningurinn sé almennur og samtakamátturinn sterkur. Á það hefur frá upphafi skort,“ sagði Gunnar Bragi og bætti við að sterkar vísbendingar séu um að þjóðin sé sama sinnis og ríkisstjórnin.

„Ríkisstjórnin er einhuga í þessu máli, hlé hefur verið gert á ferlinu, engu hefur verið slitið og við viljum efla samskipti og treysta sambandið við Evrópusambandið án þess að til aðildar að bandalaginu komi.“

„Orð skulu standa“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert