Margrét Edda Gnarr varð í dag heimsmeistari í módelfitness. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur verður heimsmeistari í fitness en þeir sem urðu í efstu sætum á síðasta ári eru allir atvinnumenn í greininni. Margrét getur nú, fyrst Íslendinga, sótt um að verða atvinnumaður á vegum alþjóðasambands líkamsræktarmanna.
Keppnin fór fram í Kænugarði í Úkraínu og voru keppendur meira en þrjú hundruð. Auk Margrétar kepptu þrír aðrir íslenskir keppendur, þær Karen Lind Thompson, Olga Helena Ólafsdóttir og Auður Guðmundsdóttir. Komst Karen Lind í fimmtán manna úrslit í sínum flokki. Frá þessu greina Fitnessfréttir.