Bílstjórar ráðherra jafnframt öryggisverðir

Bílstjórar ráðherra munu nú jafnframt sinna hlutverki öryggisvarðar ráðherra.
Bílstjórar ráðherra munu nú jafnframt sinna hlutverki öryggisvarðar ráðherra.

Bílstjórar ráðherra munu nú jafnframt sinna hlutverki öryggisvarðar ráðherra. Þetta kemur fram í 8. grein nýrrar reglugerðar um bifreiðamál ríkisins sem samþykkt var nýlega. Ríkislögreglustjóri hefur þegar auglýst eftir lögreglumanni á innri vef lögreglunnar sem mun hafa það hlutverk að vera bílstjóri innanríkisráðherra, en þetta er í fyrsta skipti sem ráða þarf bílstjóra eftir að reglugerðin tók gildi.

Í auglýsingunni segir að viðkomandi verði starfsmaður hjá ríkislögreglustjóra og þurfi að undirgangast sérstaka þjálfun vegna starfsins. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu verður bílstjórinn þó starfsmaður innanríkisráðuneytisins líkt og venja hefur verið.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu fela umræddar breytingar á reglugerðinni ekki í sér að skipta þurfi út öllum bílstjórunum. Með breytingum á reglugerðinni sé verið að aðlaga hana kröfum nútímans um öryggismál og fella að verklagi sem þegar er viðhaft, til dæmis í tengslum við öryggisbúnað í ráðherrabifreiðum.

Öryggismál ráðuneyta hafa verið almennt til skoðunar og eru breytingar á reglugerð um bifreiðamál gerðar í tengslum við þá skoðun. Atvik hafa komið upp sem gefið hafa tilefni til þess að skoða öryggismál, svo sem árásir á ráðherrabíla í hruninu.

Í nýju reglugerðinni segir um ráðherrabíla: „Bifreiðin skal vera sérútbúin með öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði og vera í eigu og rekstri ríkisins. Slíkri bifreið skal að jafnaði ekið af sérstökum bifreiðarstjóra sem sinnir jafnframt hlutverki öryggisvarðar hlutaðeigandi ráðherra.“

Í eldri reglugerð var ekki getið um öryggishlutverk ráðherrabílstjóra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert