Fór með dæturnar til Íslands

Hjördís Svan með dæturnar þrjár. Myndin var tekin fyrir nokkrum …
Hjördís Svan með dæturnar þrjár. Myndin var tekin fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/Facebook

Íslensk kona sem átt hefur í langri forræðisdeilu í Danmörku er komin með dætur sínar þrjár til Íslands. Barnsfaðir hennar krefst þess að börnin verði framseld til Danmerkur.

Dómstóll í Danmörku dæmdi í september á síðasta ári barnsföður Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur fullt forræði yfir dætrum þeirra, en henni var dæmdur umgengnisréttur yfir þeim í Danmörku.

Átti að skila þeim 4. ágúst

Hjördís hafði áður farið til Íslands með dæturnar. Faðir barnanna krafðist þess að þær yrðu framseldar til Danmerkuu. Dómstólar hér á landi féllust á beiðnina á grundvelli þess að dæma ætti í málinu í Danmörku. Þær voru síðan fluttar til Danmerkur með lögregluvaldi.

Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, sem gætt hefur hagsmuna föðurins á Íslandi, sagði að konan hefði verið með börnin í sumar í samræmi við úrskurð dómstóla um umgengni. Hún hefði átt að skila þeim 4. ágúst, en ekki gert það. Faðir barnanna hefði í framhaldinu haft samband við lögreglu í Danmörku.

Lára sagðist vita að börnin væru á Íslandi, en ekki hvar þau væru niðurkomin. Hún sagði að faðir barnanna stæði í þeirri trú að danska lögreglan hefði verið í sambandi við íslensk lögregluyfirvöld. Henni var hins vegar ókunnugt um framhaldið hjá íslenskum lögregluyfirvöldum.

Lára sagði að börnin væru á skólaskyldualdri og á foreldrum og stjórnvöldum hvíldi sú skylda að tryggja að þau gengju í skóla.

Segir bréf ráðuneytisins skipta máli

Hreinn Loftsson og Kristín Ólafsdóttir, lögmenn Hjördísar, sendu í dag frá sér yfirlýsingu þar sem segir að þau vilji ekki tjá sig um málið að svo komnu máli. „Umbj. okkar vill þó koma því á framfæri að bréf innanríkisráðuneytisins til sýslumannsins á Höfn í Hornafirði hinn 23. ágúst sl. felur í sér mikilvæga viðurkenningu á því að ekki hafi verið farið að lögum þegar börnin voru tekin af henni og þau flutt nauðug til Danmerkur sumarið 2012. Sú ólögmæta aðför hefur verið kærð til Mannréttindadómstóls Evrópu. Jafnframt hefur hún falið okkur lögmönnum sínum að undirbúa skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu vegna þessarar ólögmætu aðfarar.

Þá vill hún að fram komi að undirréttardómur í Danmörku þess efnis að maðurinn fengi fullt forræði yfir börnunum hvíldi á þeirri forsendu að aðgerðir íslenskra stjórnvalda sumarið 2012 hefðu verið lögmætar. Nú liggur fyrir viðurkenning innanríkisráðuneytisins um ólögmæti aðgerðanna og verður að skoða dóminn í því ljósi svo og með hliðsjón af því að æðri dómstóll í Danmörku vísaði málinu frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert