Tveir Norðurlandameistaratitlar um helgina

Skáksveit Rimaskóla
Skáksveit Rimaskóla

Það komu tveir Norðurlandameistaratitlar í skák í hús um helgina. Rimaskóli varð Norðurlandameistari grunnskólasveita og Álfhólsskóli Norðurlandameistari barnaskólasveita.

Norðurlandamót grunnskólasveita fór fram í Hokksund í Noregi.

Sveit Rimaskóla hlaut 16,5 vinninga í 20 skákum og varð vinningi fyrir ofan Danina sem veittu þeim harða keppni. Þetta er í fjórða árið í röð sem sveit frá Rimaskóla vinnur Norðurlandameistaratitil, þá ýmist í grunnskóla- eða barnaskólaflokki, samkvæmt upplýsingum frá Skáksambandi Íslands.

Skáksveit Rimaskóla skipuðu:

Dagur Ragnarsson 3,5 v. af 5

Oliver Aron Jóhannesson 4 v. af 5

Jón Trausti Harðarson 5 v. af 5

Nansý Davíðsdóttir 4 v. af 5

Kristófer Jóel Jóhannesson - tefldi ekki.

Oliver og Jón Trausti fengu borðaverðlaun fyrir bestan árangur á 2. og 3. borði. Þetta var fjórði Norðurlandameistaratitill Dags, Olivers og Jóns Trausta. Dagur og Jón Trausti eru á sínu síðasta ári - hafa hafið nám í MH.

Liðsstjóri var Hjörvar Steinn Grétarsson, alþjóðlegur meistari og landsliðsmaður. Hjörvar er gamall nemandi Rimaskóla og varð tvöfaldur Norðurlandameistari með skólanum. Fararstjóri hópsins var Helgi Árnason skólastjóri.

Norðurlandamót barnaskólasveita fór fram í Helsinki í Finnlandi.

Skáksveit Álfhólsskóla hlaut 15 vinninga í 20 skákum og varð hálfum vinningi fyrir ofan norsku sveitina sem varð önnur og vinningi fyrir ofan dönsku sveitina sem varð þriðja. Keppnin varð því afar hörð og jöfn. Þetta er fyrsti Norðurlandameistaratitill Álfhólsskóla, sem hefur endað í öðru sæti tvö ár í röð. Skáksveit Álfhólsskóla skipuðu:

Dawid Kolka 4 v. af 5

Felix Steinþórsson 4,5 v. af 5

Guðmundur Agnar Bragason 3 v. af 5

Oddur Þór Unnsteinsson 3,5 v. af 5

Halldór Atli Kristjánsson – tefldi ekki

Liðsstjóri sveitarinnar var Lenka Ptácníková landsliðskona og stórmeistari kvenna en Lenka hefur löngum haldið uppi ákaflega öflugri skákkennslu í Kópavogi, samkvæmt upplýsingum frá Skáksambandi Íslands.

Skáksveit Álfhólsskóla
Skáksveit Álfhólsskóla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert