Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á meintu harðræði starfsmanna Leikskólans 101 gegn börnum stendur enn yfir.
Búið er að taka skýrslur af hátt í fjörutíu manns, bæði foreldrum og starfsmönnum leikskólans að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar yfirlögregluþjóns. Ekki liggur fyrir hvort skýrslutökum sé formlega lokið en rannsóknin er langt á veg komin.
Líkt og fram hefur komið ákvað Hulda Linda Stefánsdóttir, eigandi Leikskólans 101, að hætta rekstri ungbarnaskólans. Í yfirlýsingu sem hún sendi á fjölmiðla í lok síðasta mánaðar hét hún áfram fullri samvinnu við þá sem rannsaka málefni leikskólans.
Málið komst upp þegar tveir sumarstarfsmenn á leikskólanum sýndu Barnavernd Reykjavíkur myndskeið 27. ágúst og tilkynntu málið formlega.
Einnig hefur komið fram að fjármál leikskólans væru til skoðunar hjá skattrannsóknarstjóra.
Alls dvaldi 31 barn á leikskólanum, en börnin voru frá 9-18 mánaða gömul. Starfsmenn leikskólans voru níu talsins.