Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra hefur beðið Umhverfisstofnun að gera viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs síldardauða í Kolgrafafirði.
Síðastliðinn vetur drapst mikið magn síldar í firðinum í tveimur viðburðum, í desember og febrúar. Erfitt er að spá fyrir um líkur á að þeir atburðir endurtaki sig, en rétt þykir að gera áætlun um viðbrögð ef slíkt gerist og hafa hana tilbúna áður en sumargotssíldin kemur að landi til vetrardvala, sem er venjulega um mánaðamótin september/október. Flest bendir til að stærstur hluti síldarstofnsins muni halda sig í vetur við sunnanverðan Breiðafjörð eins og undanfarin ár og því þurfi að vakta ástandið við Kolgrafafjörð sérstaklega, segir á vef ráðuneytisins.
Talið að 50 þúsund tonn hafi drepist
Alls er talið að um eða yfir 50.000 tonn af síld hafi drepist í Kolgrafafirði í viðburðunum sl. vetur, en þeir voru álíka stórir að umfangi. Í síðari síldardauðanum rak mun meira af síld á land, mestallt í fjörur fyrir neðan bæinn Eiði. Gripið var til umfangsmikilla hreinsunaraðgerða, mikið magn síldar var grafið í fjörunni, en grút sem rak á fjörur var mokað burt og hann urðaður. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði tengiliðahóp nú í sumar til að skoða viðbúnað fyrir komandi vetur, með þátttöku umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Grundarfjarðarbæjar, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Náttúrustofu Vesturlands og ábúenda á Eiði. Hópurinn hefur farið yfir stöðu mála og möguleika á viðbúnaði og í kjölfarið var ákveðið að gera formlega viðbragðsáætlun við hugsanlegum nýjum viðburðum.
Hafrannsóknastofnun hefur skoðað ýmsar aðferðir til að fæla síld, til að athuga hvort hægt er að hindra hana í að fara inn fyrir þverun í firðinum eða að fæla hana burt þaðan ef stórar torfur fara þar inn. Niðurstöður úr þeim tilraunum gefa ekki tilefni til bjartsýni um að hægt sé að treysta á slíkar fyrirbyggjandi aðgerðir. Hreinsunaraðgerðir þóttu takast vonum framar í ljósi þess að um fordæmalausa atburði var að ræða. Stofnanir og heimamenn búa að þeirri reynslu, en ljóst er þó að takmarkað rými er til að grafa meira magn síldar í fjörunni við Eiði og síld getur rekið á land á fjörum þar sem óhægt er um vik að komast að með tækjum.