„Hún bara gafst upp og fór“

Fjölskyldan hefur lengi barist fyrir dvalarleyfi fyrir Romylyn. Frá vinstri: …
Fjölskyldan hefur lengi barist fyrir dvalarleyfi fyrir Romylyn. Frá vinstri: Romylyn Patti Fagaine, Ellert Högni Jónsson, Una Margrét Ellertsdóttir og Marilyn Sucgang Faigane.

„Hún bara gafst upp og fór,“ segir Ellert Högni Jónsson, fósturfaðir Romylyn Patty Faigane, filippseyskrar stúlku sem fór úr landi fyrir helgi. Hann hefur barist í átta ár fyrir því að hún fengi dvalarleyfi hér á landi. Þrjár umsóknir hafa farið í gegnum kerfið og nú bendir Útlendingastofnun þeim á að senda inn nýja umsókn, m.a. vegna þess að fyrirliggjandi pappírar séu orðnir of gamlir.

Móðir stúlkunnar, Marylyn, giftist Ellerti fyrir átta árum og flutti hingað til lands. Romylyn varð hins vegar eftir hjá afa sínum á Filippseyjum. Ellert og Marylyn sóttu fljótlega um dvalarleyfi fyrir Romylyn, sem þá var 14 ára. Umsókninni var hafnað átta mánuðum síðar með þeim rökum að faðir Romylyn væri á lífi og gæti séð um hana. Faðirinn hafði hins vegar aldrei skipt sér af dóttur sinni.

Ráðuneytið var 14 mánuði að afgreiða kæru

Faðir Romylyn var myrtur árið 2009 og þá var aftur sótt um dvalarleyfi. Átján mánuði tók að afgreiða þá umsókn, en henni var svarað stuttu eftir að hún varð 18 ára. Þar með var ekki lengur verið að afgreiða umsókn frá foreldrum ólögráða barns, en í svarbréfinu var henni bent á að sækja um dvalarleyfi sem nemandi eða sérfræðingur.

Í desember 2011 kom Romylyn til landsins sem ferðamaður, sem þýddi að hún mátti vera þrjá mánuði í landinu. Aftur var sótt um dvalarleyfi. Útlendingastofnun hafnaði umsókninni, en sú niðurstaða var kærð til innanríkisráðuneytisins. Það tók ráðuneytið 14 mánuði að afgreiða umsóknina.

Varð fyrir vonbrigðum með afgreiðslu Ögmundar

„Hún var búin að vera hér í tvö ár í lausu lofti. Hún gat ekkert gert, mátti ekki vinna og gat ekkert gert fyrir sjálfa sig. Hún var eins og í fangelsi.

Við vorum alltaf að bíða eftir svari. Ég var búinn að ræða þetta oft símleiðis við Ögmund Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra. Hann var alltaf að skoða málið og lofaði að þetta yrði afgreitt. Hann sagði rétt fyrir kosningar að hann myndi kippa þessu í liðinn á mánudaginn. Sá mánudagur er ekki kominn enn,“ segir Ellert. Hann segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með hvernig Ögmundur hélt á málinu. Hann hafi gefið til kynna að málið yrði afgreitt en ekki staðið við það.

Ellert óskaði eftir viðtali við nýjan innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, eftir að hún tók við. „Hún veitti mér viðtal. Hún er fyrsti ráðherrann sem ég hitti augliti til auglitis í þessari átta ára baráttu, en þrír ráðherrar hafa haft með þetta mál að gera á þessu tímabili. Hún byrjaði á að biðja mig afsökunar á því að ráðuneytið væri ekki búið að afgreiða umsóknina, en málið hafði þá verið í innanríkisráðuneytinu í 14 mánuði. Hún sagði að ráðuneytið myndi svara bréfinu innan viku. Ég bað hana að höggva á þennan hnút, en hún sagðist ekki hafa vald til þess að gera það,“ segir Ellert sem er ekki sáttur við þau svör að ráðherra geti ekki beitt sér gagnvart Útlendingastofnun.

Keypti flugmiða eftir að hún fékk bréfið frá Útlendingastofnun

Bréf barst frá innanríkisráðuneytinu viku eftir að Ellert átti fund með Hönnu Birnu. Útlendingastofnun hafði neitað að afgreiða umsókn Romylyn vegna þess að hún dveldist ólöglega hér á landi. Innanríkisráðuneytið komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að stofnuninni bæri að taka umsóknina til umfjöllunar. Tekið er fram að henni sé heimilt að vera á landinu meðan umsókn hennar er til afgreiðslu.

„Það sem Útlendingastofnun gerði síðan var að opna umsókn hennar, loka henni aftur og senda síðan bréf, en í því er okkur bent á að sækja um dvalarleyfi að nýju. Málið er því enn og aftur komið á byrjunarreit. Þeir eru að fara fram á að við sækjum um dvalarleyfi í fjórða sinn.

Þegar Romylyn fékk þetta bréf fór hún og keypti sér farmiða til Filippseyja og lét okkur vita sex tímum áður en hún átti að leggja af stað að hún væri að fara frá okkur. Hún sagðist vera búin að gefast upp.

Ég skil að mörgu leyti afstöðu hennar. Við vitum að þetta bréf þýðir að hún þarf að vera í óvissu í 6-8 mánuði til viðbótar. Hún treysti sér ekki til að vera lengur í þessari óvissu, óvissu sem er ekkert annað en fangelsi.“

„Það er búið að gráta mikið á þessu heimili“

Ellert og Marylyn hafa séð um Romylyn meðan hún var hér á landi og raunar hafði Marylyn sent henni peninga út allt frá því að hún fór frá Filippseyjum fyrir átta árum. Ellert segir að Romylyn hafi lagt til hliðar af vasapeningum sem hún fékk og hún hafi því átt fyrir flugmiðanum. Þau létu hana síðan hafa gjaldeyri áður en hún fór út.

„Það er búið að gráta mikið á þessu heimili síðan hún fór. Romylyn á átta ára systur sem er auðvitað í áfalli eins og við öll,“ segir Ellert. „Ég óttast að ef þetta mál leysist ekki fljótlega munum við týna henni.“

Ellert segir að það sé mjög slæmt ástand á Filippseyjum núna og þar sé enga vinnu að hafa.

Ellert segist núna vera að fara yfir stöðu málsins. Hann hafi fengið góða aðstoð frá Mannréttindastofu. Hann útilokar ekki að fara í dómsmál vegna þess hvernig stjórnvöld hafi staðið að málum.

Ellert bendir á að samkvæmt lögum hafi stjórnvöld sex mánuði að afgreiða umsóknir. Fyrsta umsóknin hafi verið afgreidd á átta mánuðum, næsta á 18 mánuðum og sú þriðja á 14 mánuðum. „Nú er okkur sagt að þau vottorð sem við höfum lagt fram séu orðin of gömul og við verðum að útvega ný. Ég spyr: Eigum við að þurfa að bera skaðann af þeim töfum sem hafa orðið á afgreiðslu málsins í kerfinu?“

Biður aftur um fæðingarvottorð

Samkvæmt nýjasta bréfi Útlendingastofnunar þarf Romylyn að leggja fram margvíslega pappíra. „Þeir óska m.a. eftir að við sendum inn fæðingarvottorð að nýju og það er eins og þeir haldi að fæðingarvottorðið hafi eitthvað breyst. Þeir báðu um sakavottorð, en þeir eru með það í höndunum. Lögreglustjóraembættið hér getur ekki gefið út sakavottorð vegna þess að hún er ekki komin með kennitölu. Síðan er beðið um vottorð frá félagsmálastofnun Filippseyja um að hún sé ekki gift og eigi ekki barn. Útlendingastofnun er með alla þessa pappíra.

Þá er farið fram á dánarvottorð pabba hennar. Ég skil ekki hvað það kemur málinu við. Hún er að sækja um sem 22 ára gamall einstaklingur. Hvaða máli skiptir dánarvottorð föður hennar? Þar fyrir utan er stofnunin með dánarvottorð mannsins.“

Ellert segist vera búinn að leggja á sig mikla vinnu og útgjöld við að útvega þau vottorð sem beðið var um. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi aðstoðað þau með að koma á tengslum við konsúl Íslands á Filippseyjum, sem hafi gengið í það að útvega umbeðin vottorð og þau hafi verið send með DHL til Íslands.

Mætir tortryggni hjá Útlendingastofnun

Ellert segist alla tíð hafa mætt mikilli tortryggni í Útlendingastofnun. Starfsmenn stofnunarinnar hafi m.a. tortryggt hvað hann hafi verið fljótur að skila umbeðnum gögnum og jafnvel gefið í skyn að hann hafi falsað þau. Stofnunin hafi meira að segja gefið til kynna að það sé ósannað að Marylyn sé móðir Romylyn. Samt hafi starfsmenn stofnunarinnar aldrei óskað eftir að tekin yrðu DNA-sýni úr mæðgunum.

Ellert segir að það hafi verið tortryggt að á fæðingarvottorðinu stóð fyrir mistök ættarnafnið „Faegane“ en ekki „Faigane“. Stofnunin sem gaf út vottorðið leiðrétti þessi mistök síðar bréflega. Eins hafi verið tortryggt að á dánarvottorði föður Romylyn hafi staðið Romy Castillo en ekki Romeo Castillo, en Romy var gælunafn hans.

„Forstjóri Útlendingastofnunar gekk svo langt, þegar hann ræddi við okkur um hvaða leiðir væru færar, að nefna þá leið að gifta stúlkuna, því þá yrði hún ekki send út landi. Hún sagði þetta við okkur, en bætti við að hún gæti ekki mælt með þessari leið.

Það kemur auðvitað ekki til greina að við förum að finna einhvern karl til að giftast henni. Við vonuðumst eftir að hún fengi að byggja upp líf sitt hér á landi, verða ástfangin og skapa sér framtíð hér,“ segir Ellert.

Ögmundur sagði lögreglunni að hafa sig á brott

Ellert segir að Útlendingastofnun hafi hins vegar sigað lögreglunni á þau fyrr á þessu ári eftir að einhver hafði hringt í stofnunina og haldið því fram að þau væru að láta hana giftast. „Það komu lögreglumenn hér inn á gólf til okkar til að forvitnast um Romylyn. Ég hafði strax samband við Ögmund, sem hringdi í lögreglumennina og sagði þeim að hafa sig á brott.“

Ellert segir að koma lögreglumannanna hafi haft slæm áhrif á Romylyn og sjálfsagt ýtt undir þá ákvörðun hennar að fara úr landi.

Segir ekki allar umsóknir fá sömu afgreiðslu

Ellert segir að eitt af því sem gerði það að verkum að Romylyn fylltist vonleysi um að mál hennar fengi farsælan endi hafi verið að hún kynntist stúlku frá Filippseyjum, en mál hennar hafi fengið allt aðra afgreiðslu í kerfinu en hennar umsókn. Móðir hennar kom til landsins fyrir einu ári og fékk dvalarleyfi á mjög skömmum tíma. Hún sótti síðan um dvalarleyfi fyrir dóttur sína, sem er jafnaldri Romylyn. Hún fékk fyrst neitun en stuttu síðar tveggja ára atvinnuleyfi með þeim rökum að hún ætlaði að læra að verða kokkur á Íslandi.

Ellert segir eitthvað bogið við hvernig hægt sé að afgreiða tvö svona lík mál á þann hátt að önnur stúlkan fái dvalarleyfi á skömmum tíma en hin ekki.

Var orðin döpur

Ellert segir að hann og fjölskylda sín hafi rekist á marga veggi á þessum árum síðan Romylyn sótti fyrst um dvalarleyfi. „Eitt af því sem okkur var bent á var að Romylyn gæti farið í háskólanám. Við fórum upp í háskóla og hún ætlaði að taka framhaldsnám, en hún er menntaður öldrunarhjúkrunarfræðingur. Þar fengum við þau svör að það væri best fyrir hana að fara fyrst í íslenskunám hjá Keili. Við gerðum það og hún tók fyrsta hluta námsins. Keilir sendi bréf til Útlendingastofnunar og mælti með því að hún fengi að vera hérna því að hún væri mjög góður námsmaður. Svör Útlendingastofnunar voru hins vegar að það væri ekki tekið mark á þessu námi. Þetta er samt það nám sem útlendingum er bent á að taka.“

Romylyn hafði meðan hún dvaldi hér á landi fengið tilboð um vinnu á hjúkrunarheimilinu Eir, en Ellert segir að hún hafi ekki getað tekið því boði vegna þess að hún var ekki með kennitölu.

Ellert segir að þetta mál allt hafi tekið mikið á fjölskylduna. „Ég er búinn að hafa miklar áhyggjur af Romylyn því ég hef séð hvernig þetta mál hefur farið með hana, hvernig hún hefur smám saman orðið daprari og daprari. Hún sjálf hafði áhyggjur af mér og að þetta mál færi illa með mína heilsu. Það á kannski sinn þátt í að hún ákvað að fara.“

Romylyn Patty Faigane ákvað í síðustu viku að fara heim …
Romylyn Patty Faigane ákvað í síðustu viku að fara heim til Filippseyja eftir að hún fékk bréf frá Útlendingastofnun um að hún þyrfti að sækja um dvalarleyfi að nýju. Það yrði þá fjórða umsókn hennar.
Þetta er afrit af hluta þeirra vottorða sem Marylyn og …
Þetta er afrit af hluta þeirra vottorða sem Marylyn og Ellert hafa aflað og sent til Útlendingastofnunar.
Marylyn og Ellert kvöddu Romylyn í síðustu viku.
Marylyn og Ellert kvöddu Romylyn í síðustu viku.
Fæðingarvottorð Romylyn hefur verið sent til Útlendingastofnunar, en nú óskar …
Fæðingarvottorð Romylyn hefur verið sent til Útlendingastofnunar, en nú óskar stofnunin eftir að vottorðið verði sent stofnunni aftur frá Filippseyjum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka