Eftir nokkurra mánaða samvinnu fulltrúa almennings og lögreglu liggur nú fyrir sáttmáli um samskipti allra vegfarenda í umferðinni. Frumeintak sáttmálans var afhent forseta Íslands í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag og við sama tækifæri fengu skólabörn leiðsögn lögreglu við umferðarreglurnar í bílabraut garðsins.
Markmið umferðarsáttmálans er að móta í sameiningu jákvæða umferðarmenningu. Það var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem átti frumkvæði að verkefninu, m.a. í ljósi góðs árangurs sem náðst hefur af gagnkvæmum samskiptum lögreglu og almennings í gegnum Facebook, þar sem ljóst hefur orðið að allir hafa skoðun á umferðinni.
Hugmyndin er sú að sáttmálinn sé nokkurs konar boðorð vegfarenda, einfaldar kurteisisreglur sem allir ættu að geta tileinkað sér til að stuðla að jákvæðri umferðarmenningu.
Í samstarfi við Umferðarstofu var í mars auglýst á facebook-síðu lögreglu eftir áhugasömum þátttakendum til að vinna að gerð sáttmálans og sýndu margir áhuga. Á endanum var settur saman 14 manna hópur karla og kvenna á öllum aldri. Í kjölfarið var einnig stofnaður sérstakur umræðuhópur á Facebook um umferðarmenninguna þar sem margir lögðu sitt til málanna.
Sáttmálinn hefur nú litið dagsins ljós og er hann í 13 einföldum liðum:
Ólafur Ragnar Grímsson tók við sáttmálanum við hátíðlega athöfn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag. Af þessu tilefni var börnum af leikskólanum Sunnuási og úr 2. bekk í Langholtsskóla boðið í garðinn og fengu þau að aka um bílabrautina þar sem lögregla stýrði umferðinni og fór yfir umferðarreglurnar.
<a href="http://www.facebook.com/groups/umferd/?fref=ts">Facebook-síða umferðarsáttmálans</a>