Enn er ekkert vitað um afdrif níu Albana af þrettán sem skiluðu sér ekki aftur í flug til Albaníu að loknum knattspyrnulandsleik Íslands og Albaníu sem fór fram á Laugardalsvelli 10. september sl. Fjórir Albanir hafa sótt um hæli á Íslandi og mál þeirra eru nú til meðferðar hjá Útlendingastofnun.
„Það voru 13 sem fóru ekki í vélinni til baka og af þeim sóttu fjórir um hæli. Við höfum ekkert orðið vör við hina níu,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun í samtali við mbl.is.
Tekið skal fram að níumenningarnir hafa leyfi til að vera hér á landi, eða í öðrum Schengen-ríkjum, í þrjá mánuði án vegabréfsáritunar.
Málefni Albananna fjögurra sem hafa sótt um hæli eru nú í hefðbundnum farvegi að sögn Þorsteins. Aðspurður segist Þorsteinn ekki geta tjáð sig um það á hvaða grundvelli mennirnir óska eftir hæli á Íslandi.
Hefðbundið ferli við hælisleit á Íslandi hefst með því að bera upp umsókn hjá lögreglu sem tekur í framhaldi skýrslu að viðkomandi hælisleitanda og skráir niður umsóknina. Að því loknu sendir lögreglan málið til Útlendingastofnunar sem tekur viðtal við viðkomandi. Í framhaldinu hefst ákvarðatökuferill, en þegar málið er komið á það stig eru hælisleitendur komnir með lögmann.
Ef Útlendingastofnun neitar að samþykkja umsókn þá geta hælisleitendur kært niðurstöðuna til innanríkisráðuneytisins.
Ofangreint ferli getur tekið allt frá nokkrum vikum upp í nokkra mánuði.
Flestir hælisleitendur dvelja á gistiheimilum á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá yfirvöldum, m.a. á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ. Þar eru nú rúmlega 20 hælisleitendur en aðrir gististaðir eru í boði.