Fallist á að afhenda mennina

Kókaín
Kókaín AFP

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að senda eigi tvo menn til Danmerkur þar sem þeir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald þar í landi vegna gruns um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Dönsk yfirvöld höfðu sent út handtökuskipun á hendur mönnunum og hafa íslensk yfirvöld fallist á að afhenda þá.

Ríkissaksóknari hafði farið fram á að mennirnir yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald hér á landi en þeir voru handteknir þann 16. september sl. Héraðsdómari féllst ekki á það en úrskurðaði þá í farbann.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 11. september sl. hafi ríkissaksóknara borist beiðni frá yfirvöldum í Danmörku um handtöku og afhendingu mannanna tveggja vegna meðferðar sakamáls þar í landi, þ.e. norræn handtökuskipun.

Byggir handtökuskipunin á úrskurði héraðsdóms í Kaupmannahöfn frá 29. ágúst 2013 þar sem þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Þann 15. nóvember 2012  voru mennirnir teknir ásamt þeim þriðja með 485 grömm af kókaíni í fórum sínum og að hafa dagana þar á undan, á Kaupmannahafnarsvæðinu, gert tilraun til að kaupa hálft kíló af kókaíni. Mál þess þriðja hefur ekki verið tekið fyrir í Hæstarétti.

Í niðurstöðu héraðsdómara kemur fram að það sé mat dómarans að  farbann komi að sömu notum og gæsluvarðhald og tryggi með fullnægjandi hætti að mennirnir komist ekki úr landi eða skjóti sér með öðrum hætti undan því að hlíta ákvörðun ríkissaksóknara.

Lögfræðingur mannanna taldi að ekki ætti að senda mennina úr landi þar sem fíkniefnamálið sé einnig til rannsóknar hér á landi. 

Í bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 16. september 2013, kemur hins vegar fram að rannsókn þess máls sé lokið. Jafnframt kemur fram í bréfinu að dönsk lögregluyfirvöld hafi óskað eftir því að fá gögn þess máls send út og hyggist sameina málin.

Í ljósi þess að rannsókn málsins hefur verið hætt hér á landi og ætluð brot framin í Danmörku séu rök fyrir því að málin séu rannsökuð þar og því séu skilyrði fyrir hendi að mennirnir verði afhentir dönskum yfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert