Dómstóll í Kaupmannahöfn dæmdi í dag þrjá Íslendinga og tvo Dani í sex til tíu ára fangelsi fyrir umfangsmikið fíkniefnasmygl. Íslendingunum er jafnframt bannað að ferðast aftur til Danmerkur.
Fram kemur í dönskum fjölmiðlum að mennirnir hafi verið fundnir sekir um smygl á miklu magni amfetamíns til Danmerkur frá Hollandi.
Þá kemur fram að einn Íslendingur hafi verið dæmdur til vistunar á geðsjúkrahúsi. Þá þarf annar Íslendingur að gangast undir geðrannsókn og verður refsing yfir honum ákveðin að henni lokinni.
Meintur höfuðpaur smyglaranna, Guðmundur Ingi Þóroddsson, var dæmdur í 12 ára fangelsi í júní. Þá voru þeir Heimir Sigurðsson og Sturla Þórhallsson dæmdir í 10 ára fangelsi hvor í sama máli í ágúst sl.
Málið snýst smygl á um 70 kílóum af amfetamíni í þremur ferðum, en aðild mannanna að smyglinu var mismikil, allt frá smygli á 10-48 kílóum af amfetamíni.
Peter Baungaard, sem er 43 ára gamall, og sagður annar höfuðpaurinn í málinu, var í dag dæmdur í 10 ára fangelsi. Íslendingurinn Ágúst Csillaq, sem er 21 árs gamall, hlaut einnig 10 ára dóm.
Mads Malmquist Rasmussen, sem er 29 ára Dani, var dæmdur í sjö ára fangelsi. Enzo Rinaldi, fertugur Íslendingur, og Erlingur Karlsson, 24 ára Íslendingur, voru dæmdir í sex ára fangelsi hvor.
Saksóknarinn Anders Larsen kveðst vera afar ánægður með niðurstöðuna.
„Ég er mjög ánægður. Þetta er niðurstaða fyrirtaks lögreglurannsóknar. Þetta er alvarlegt mál sem snýst um mikið magn amfetamíns, og það sést á því hversu þungir dómarnir eru,“sagði Larsen.
Amfetamínið var sótt í Hollandi og flutt í bílum til Danmerkur í þremur ferðum sem áttu sér stað á tímabilinu nóvember 2011 til september 2012.