Ekki Egill heldur Gillz

Haukur Guðmundsson og Ingi Kristján Sigurmarsson.
Haukur Guðmundsson og Ingi Kristján Sigurmarsson. mbl.is/Rósa Braga

„Umrædd mynd er ekki af Agli heldur af Gillz,“ sagði Haukur Guðmundsson, lögmaður Inga Kristjáns Sigurmarssonar, í málflutningsræðu sinni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Fjölmiðlamaðurinn Egill Einarsson stefndi Inga Kristjáni fyrir ærumeiðingar vegna myndar hans sem fór í dreifingu.

Um var að ræða forsíðu Monitor en Egill var í viðtali við blaðið. Ingi Kristján teiknaði öfugan kross á ennið á Agli og ritaði orðin „Fucking rapist pig“ við. Haukur sagði skýrt að viðtalið hefði verið við Gillz en ekki við Egil Einarsson. „Ummæli um skáldaðar persónur varða ekki við lög. Það er ekki hægt að meiða æru Bogomil Font.“

Þá sagði hann að uppnefnið á myndinni væri gildisdómur, þetta séu fúkyrði en ekki fyrirvaralausar fullyrðingar um hegningarlagabrot. Það væri þá ósanngjarnt að verðlauna Egil með fjárbótum úr höndum listaháskólanema. Dómsmálið sé með öllu óþarft, það snúist um mynd sem sett hafi verið saman í hálfkæringi og hafi farið án atbeina Inga Kristjáns í dreifingu. Þá hafi honum ekki getað komið til hugar að Egill væri svona hörundsár. Auk þess hefði Egill ekki orðið fyrir neinum miska og æra hans og virðing sé söm og áður.

Haukur sagði einnig að um væri að ræða kynningarherferð Egils. Dómsmálið væri til að vekja athygli á honum sjálfum. „Það verður að skoða þetta heildstætt. Dómstólar eiga ekki að koma hlaupandi með fjárbætur til orðháka.“

Þá fór Haukur yfir það sem Egill sjálfur hefur sagt í færslum sínum á vefnum. Hann sagði ekki hægt að finna mál í dómsögunni þar sem stefnandi eigi að baki svipaðan feril. Egill hafi tekið þátt í opinberri umræðu með einstökum hætti og kallað látna menn fyrirvaralaust barnaníðinga. Hann gangi stöðugt fram af fólki og veki þannig athygli á sjálfum sér. „Það skiptir máli hvernig hann hefur gengið fram. Framganga á opinberum vettvangi skiptir höfuðmáli þegar metið er hvað þeir þurfa að þola.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka