„Mér dauðbrá. Hann átti aldrei að sjá hana, það átti aldrei að gerast,“ sagði Ingi Kristján Sigurmarsson fyrir dómi í dag en hann setti á Instagram mynd af Agli Einarssyni þar sem hann var á forsíðu Monitor eftir að hann teiknaði meðal annars inn á myndina óviðurkvæmileg orð.
Hann sagðist ekkert þekkja Egil og reyni að fylgjast ekki með honum, það sé hins vegar óhjákvæmilegt. Hann hafi vitað af nauðgunarmálinu og að það var fellt niður. Viðtalið í Monitor hafi farið fyrir brjóstið á honum, þar sem blaðinu sé dreift í menntaskóla og viðtalið hafi ekki átt erindi við menntaskólakrakka.
Ingi sagðist hafa verið að snæða hádegismat þegar hann teiknaði í hugsunarleysi á forsíðuna, tók mynd af henni og birti á Instagram. Hann hafi aldrei ætlað að hún færi í dreifingu enda ætti birtingin að takmarkast við þá hundrað fylgjendur sem hann hefði á Instagram.
Hann sagði hjarta sitt hafa fallið niður í buxur þegar hann svo fékk innheimtubréf frá lögmanni Egils. Hann hafi skilið það sem hótun og fól hann því föður sínum, sem er lögmaður, að taka að sér málið. Hann sagðist hafa verið tilbúinn að biðjast afsökunar og að faðir hans hefði sent lögmanni Egils afsökunarbeiðni.
Þá sagðist Ingi Kristján sjá eftir að hafa gert myndina. Lögmaður Egils spurði hvort honum þætti hann sjálfur til þess fallinn að fella þann dóm yfir Agli að hann væri nauðgari. Ingi sagði svo ekki vera. Lögmaður Egils sagði þá að með myndinni hefði hann gert það og svaraði Ingi þá: „Það má sjá það þannig.“