Þrír íslenskir flugvirkjar á vegum flugfélagsins Atlanta sæta rannsókn hjá yfirvöldum Sádi-Arabíu, en þeir eru grunaðir um ölvun. RÚV greindi frá þessu fyrr í dag.
Mennirnir þrír voru á leið til Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, með flugfélaginu Saudi Arabia Airlines, og neyttu samkvæmt heimildum RÚV áfengis um borð í vélinni, en það er með öllu óheimilt. Flugvallaryfirvöld færðu mennina í varðhald þegar þeir lentu í Riyadh. Áfengisneysla er óheimil í Sádi-Arabíu.
Stefán Eyjólfsson, mannauðsstjóri Air Atlanta, staðfestir í samtali við mbl.is að mál mannanna þriggja sé til rannsóknar í Riyadh. Mennirnir dvelja nú á hóteli á vegum flugfélagsins og bíða fyrirmæla frá yfirvöldum. Stefán segir mennina enn starfa fyrir Atlanta, enda liggja endanlegar niðurstöður um meinta ölvun þeirra ekki fyrir.