„Það voru margar andvökunætur“

Egill Einarsson mætti í réttarsal í dag.
Egill Einarsson mætti í réttarsal í dag. mbl.is/Rósa Braga

„Það voru margar andvökunætur,“ sagði Egill Einarsson  þegar meiðyrðamál hans gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Egill lýsti þá líðan sinni eftir að hann sá mynd af sér sem Ingi Kristján afskræmdi og stóð við hana „Farðu til fjandans nauðgarasvín.“

Raunar var áletrunin á ensku en þýðingin lögmanns Egils og flutt fyrir dóminum í dag.  Egill höfðaði mál vegna myndar Inga Kristjáns listaháskólanema sem birti myndina, sem var af Agli á forsíðu Monitor, á Instagram. „Það er erfitt að lýsa því að vera kærður fyrir nauðgun sem maður er saklaus af og þurfa að verja sig fyrir þeim ásökunum  en svo bætist netumræðan við. Ég sýndi henni þolinmæði á meðan málið var til rannsóknar en svo varð hún verri eftir að málinu var vísað frá ef eitthvað er. [...] Þetta var ekki aðeins erfitt fyrir mig heldur fjölskyldu mína einnig. Það var ekki auðvelt fyrir móður mína að sjá Vísi og mynd af mér þar sem búið var að afskræma mynd af mér og við stóð Fucking rapist.“

Egill sagði að sér hefði liðið eins og honum gæti ekki tekist að hreinsa nafn sitt og þegar hann svo sá þessa mynd rifjaðist upp allt annað sem hann hafði séð um sig slæmt á netinu. „Ég varð hálfdofinn.“

Hann viðurkenndi að hafa sjálfur farið yfir strikið í færslum sínum og ummælum, sérstaklega á árunum 2006 og 2007. Ein færsla hefði farið sérstaklega fyrir brjóstið á fólki og hefði hann tekið hann út af vefnum fljótlega eftir birtingu og beðist afsökunar á henni. „Fólk má móðga mig, kalla mig hálfvita og sterahaus og það allt. En ég dreg línuna við það þegar ég er sakaður um refsivert athæfi.“

Dómari málsins spurði Egil nánar út í afsökunarbeiðni hans. Sagðist hann hafa beðist afsökunar í pistli í fjölmiðlinum DV stuttu eftir að færslan birtist en einnig hefði hann farið í nokkur útvarpsviðtöl þar sem hann baðst afsökunar. „Mér fannst ég hafa farið yfir strikið þarna en þetta átti að vera fyndið. Færslan var alltof gróf og ég ætlaði ekki að meiða neinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert