Úthrópaði Egil sem nauðgara

Egill Einarsson og lögmaður hans, Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson..
Egill Einarsson og lögmaður hans, Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson.. mbl.is/Rósa Braga

„Aðalatriðið var að meiða stefnanda [Egil Einarsson] og um leið vera fyndinn og sniðugur og skora stig í sínum ranni með því að úthrópa stefnanda sem aumingja og nauðgara. Sannleikurinn var aukaatriði.“ Þetta sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Egils, í málflutningsræðu í héraðsdómi í dag.

Um var að ræða meiðyrðamál sem Egill höfðaði gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni listaháskólanema en sá síðarnefndi teiknaði ókvæðisorð á mynd af Agli og birti á Instagram. Myndin fór í almenna dreifingu í kjölfarið. Aðalmeðferð fór fram í dag og hefur þegar verið gerð grein fyrir framburði Egils og Inga Kristjáns á mbl.is í dag.

Vilhjálmur var harðorður í garð Inga Kristjáns í málflutningsræðu sinni. „Hann taldi sig þess umkominn að saka stefnanda um nauðgun og kalla hann aumingja og antikrist. Og aftaka hans fór fram án dóms og laga. Og það er enginn annar en stefndi [Ingi Kristján] sem getur borið ábyrgð á birtingu og dreifingu þessarar ljósmyndar. Ábyrgðin er hans.“

Egill fer fram á hálfa milljón í bætur fyrir myndina og að ummæli sem við hana stóðu verði dæmd dauð og ómerk. Hann hefur reyndar gefið út að verði honum dæmdar bætur muni þær renna til góðgerðamála. „Þetta er borðleggjandi ærumeiðing,“ sagði Vilhjálmur. 

Hann benti á að Inga Kristjáni hafi verið boðið að ljúka málinu með því að biðjast afsökunar. Þannig hafi margir lokið málum sínum í sambærilegum málum, til dæmis með að senda Agli persónulega tölvupóst, með stuttri færslu á samfélagsvefnum Facebook eða á Instagram. Faðir Inga Kristjáns hafi hins vegar sent lögmanni Egils afsökunarbeiðni fyrir hönd sonar síns. „En það var ekki afsökunarbeiðnin sem óskað var eftir og ekki hægt að líta á það sem afsökun frá stefnda sjálfum.“ Hann sagðist jafnframt hafa svarað bréfinu og greint frá því að afsökunarbeiðnin væri ekki fullnægjandi.

Vilhjálmur sagði að enn þann dag í dag hefði Ingi Kristján ekki séð sóma sinn í því að biðja Egil afsökunar. „Ef hann hefði beðist afsökunar strax með hverjum þeim þætti sem honum hefði þótt þóknanleg, með tölvuskeyti, stuttri færslu á Facebook eða Instagram eða sent á [fjölmiðla] þá hefði þetta mál ekki verið höfðað.“

Ennfremur sagði Vilhjálmur að Ingi Kristján hefði meitt æru Egils. Með því hefði hann brotið lögin og gerst sekur um hegningarlagabrot. Því eigi að dæma hann, þannig séu lögin og það eigi að dæma eftir lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert