Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir hefur beðið Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, formlega afsökunar á að hafa haft ranglega setningu eftir honum í fræðiritum sem hann hefur aldrei látið frá sér fara.
Hannes greinir frá þessu á blogg-síðu sinni í dag.
Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og prófessor Robert Wade hafa í ýmsum erlendum blöðum haft eftirfarandi setningu eftir Hannes innan gæsalappa: „Oddsson’s experiment with liberal policies is the greatest success story in the world.“ Eða á íslensku: Frjálshyggjutilraun Davíð Oddssonar er saga um mesta árangur í heimi. Hannes segir að þau hafi haldið því fram að hann hafi skrifað þessi hrifningarorð í Wall Street Journal 29. janúar 2004 um ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.
Hannes segir að þessi setning sé hvergi að finna í greininni.
„Eftir að ég sneri mér til Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur og kvartaði undan hinni röngu tilvitnun þeirra Wades í mig, hefur hún bréflega beðist afsökunar á tilvitnuninni og boðist til að leiðrétta villu sína í þeim blöðum og tímaritum, sem hafa birt hana. Viðurkennir hún, að þeim Wade hafi orðið á mistök með því að setja gæsalappir utan um þessa setningu eins og um beina tilvitnun væri að ræða. Segir hún til skýringar, að þau Wade hafi tekið þessa setningu eftir þriðja aðila, en ekki flett frumheimildinni upp.
Ég hef samþykkt þessi málslok, enda hefur Sigurbjörg beðist afsökunar á að hafa haft rangt eftir mér og boðist til að leiðrétta þetta, þar sem það hefur birst. Tel ég það nægja,“ segir Hannes.